Innlent

Mikill fjöldi öryrkja á biðlista eftir húsnæði

Snærós Sindradóttir skrifar
Öryrkjabandalagið hefur verið duglegt að mótmæla bágum kjörum öryrkja síðastliðin ár. 377 eru á biðlista eftir húsnæði hjá hússjóði ÖBÍ.
Öryrkjabandalagið hefur verið duglegt að mótmæla bágum kjörum öryrkja síðastliðin ár. 377 eru á biðlista eftir húsnæði hjá hússjóði ÖBÍ. vísir/stefán
Mikil fjölgun hefur orðið á biðlista Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, á einu ári. Nú eru 377 á biðlistanum en það er fimmtíu prósenta fjölgun frá því fyrir ári. Aðeins þeir sem eru 75 prósent öryrkjar og undir ákveðnum tekju- og eignamörkum uppfylla skilyrði til að leigja húsnæði hjá sjóðnum.

Björn Arnar Magnússon framkvæmdastjóri Brynju hússjóðs Öryrkjabandalagsins.vísir/gva
Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri Brynju, kennir þrengingum á leigumarkaði um langan biðlista. „Það er alltaf verið að taka fleiri og fleiri íbúðir í Airbnb og síðan er verið að selja þær íbúðir sem hafa verið í leigu.“

Brynja á 780 íbúðir sem eru fullnýttar svo allt í allt eru það ríflega 1.100 manns sem vilja búa á vegum félagsins. Leigan hjá Brynju er töluvert lægri en gengur og gerist á almennum leigumarkaði, allt frá 61 þúsund krónum fyrir litlar einstaklingsíbúðir og upp í 155 þúsund fyrir fjögurra herbergja íbúðir. Ekki er farið fram á tryggingu við upphaf leigutímabils.

Björn segir að á meðan biðlistinn lengist búi öryrkjar við erfiðar aðstæður. „Sumir eru nánast á götunni. Það eru lítil úrræði hjá sveitarfélögunum. Það er skylda sveitarfélaganna að skaffa húsnæði en þau eru bara ekkert að standa sig í því. Ástandið hefur aldrei verið eins slæmt.“

Að sögn Björns hefur Brynja að jafnaði keypt 20 íbúðir á ári undanfarin átta ár til að stemma stigu við þessum húsnæðisvanda. Nú sé til skoðunar að spýta í lófana varðandi það.

Valborg Kristjánsdóttir varð öryrki eftir slys árið 1994 og hefur verið á biðlista hjá Brynju í eitt ár. Hún er að missa leiguhúsnæði sitt og segir að nú taki við millibilsástand þar til hún fær íbúð úthlutaða. „Ég hef engin efni á að leigja á frjálsum markaði. Það var ein sem ég var að tala við sem þarf að borga þrjá mánuði fyrirfram plús tryggingu. Þetta er hátt í hálf milljón bara til að komast inn.“

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×