Skoðun

Gistináttagjald í Sviss

Björn Guðmundsson skrifar
Gríðarleg fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi hefur í för með sér mjög aukið álag á innviði þjóðfélagsins og náttúru landsins. Víða er þörf verulegra úrbóta. Má þar nefna göngustíga, vegakerfið, landvörslu og heilbrigðisþjónustu. Út um allt land er kallað eftir auknu fjármagni til að leysa þau vandamál sem að steðja. Ráðherra ferðamála sagði nýlega að tekjur af ferðamönnum væru svo miklar að ekki væri þörf á sérstakri gjaldtöku af þeim og talaði um að ekkert munaði um gistináttagjaldið (50-100 kr. á einstakling fyrir nóttina) sem skilar 250 milljónum kr. á ári. Ráðherrann vill helst leggja þetta gjald af, segir flækjustigið of mikið við innheimtuna.

Ég og konan mín stunduðum nýlega göngur í Alpafjöllunum, nánar tiltekið í Valais-kantónu í Sviss. Við gistum í viku í fjallaþorpi þar sem búa um 400 manns. Þar var gistináttagjaldið 7 SFr. á mann á nótt, sem þýðir rúmlega 1.700 kr. fyrir tvo. Börn á aldrinum 6-15 ára greiða 3,50 SFr. Gjaldið rennur beint til sveitarfélagsins þar sem gististaðurinn er staðsettur. Gjaldið er a.m.k. 17 sinnum hærra en á Íslandi og hækkun til samræmis við Sviss gæfi að lágmarki um 5 milljarða króna á ári. En kannski er það bara „baunir“ í augum ráðherra ferðamála.

Heyrst hefur frá ferðaþjónustunni og fleirum að gistináttagjaldið og önnur hugsanleg gjöld á ferðamenn séu íþyngjandi og minnki samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands. Í Valais-héraði í Sviss er ferðaþjónusta mikilvægasti atvinnuvegurinn. En þeir eru ekki hræddir við að taka gjöld af ferðamönnum enda standa þau straum af kostnaði við að þjónusta ferðamennina. Sem dæmi má nefna að merktir göngustígar í Valais eru meira en 8.000 km langir og það í kantónu sem er aðeins 1/20 af flatarmáli Íslands. Og margir þessara stíga eru hrein snilldarverk, gríðarlega mikið í þá lagt og þeim vel við haldið. Upphlaðnir á köflum, brýr yfir torfærur, öryggiskeðjur og slíkt á hættulegum stöðum. Allt vel merkt með góðum skiltum og málningu á steinum. Allt kostar þetta peninga og við greiddum umrædd gjöld með glöðu geði.

Að mínu áliti er það hreinn kjánaskapur að innheimta ekki bitastæð gjöld af ferðamönnum til að standa straum af margvíslegum kostnaði sem ferðamönnum fylgir. Þetta er gert víða um Evrópu. Hvers vegna ekki á Íslandi?




Skoðun

Sjá meira


×