Skoðun

Fullveldið og náttúran

Hilmar J. Malmquist skrifar
Eitt síðasta verk Alþingis fyrir nýafstaðnar kosningar var að samþykkja þingsályktun nr. 70/145 um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018. Að tillögunni stóðu allir formenn flokka sem sæti áttu á þinginu: Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Óttarr Proppé og Sigurður Ingi Jóhannsson. Og var ályktunin samþykkt með 56 atkvæðum en sjö voru fjarstaddir.

Margt verður gert til hátíðabrigða, m.a. staðið fyrir fundahöldum, efnt til hönnunarsamkeppni um nýja Stjórnarráðsbyggingu, gefin út rit um sambandslögin og fullveldisréttinn, sett upp handritasýning í samvinnu við Árnastofnun um menningarlegan grundvöll þjóðarinnar og stuðlað að heildarútgáfu Íslendingasagna á prenti og rafrænu sniði. Þá er nýrri ríkisstjórn falið að undirbúa jarðveginn fyrir uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúru. Síðast, en ekki síst, er ríkisstjórninni falið ...„að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns“. Í greinargerð með þingsályktuninni segir m.a.: „Mikilvægt er að koma á fót slíkri byggingu hér á landi er hýsi merkar náttúruminjar og tryggja Náttúruminjasafni með því aðstöðu til frambúðar.“

Grunnur að menningu

Nú kunna sumir að spyrja hvað náttúra og Náttúruminjasafn hafa með frelsi, sjálfstæði og fullveldi ríkisins að gera. Því er auðsvarað. Náttúran leggur grunn að menningu okkar – móðir Jörð fæðir okkur og klæðir. Menningararfurinn, verk mannanna, byggir á gjöfulli náttúru með beinum eða óbeinum hætti. Sjálfstæði Íslands og höfuðatvinnuvegir byggja á beinni nýtingu náttúrulegra auðlinda; fiskveiðum, sauðfjárbeit, beislun vatnsfalla og jarðvarma og ásýnd lands og náttúru í tengslum við ferðaþjónustu. Góð umgengni við náttúruna sem gagnast samfélaginu, veitir gleði, hamingju og komandi kynslóðum tækifæri til að halda við lífinu á sjálfbæran hátt grundvallast á virðingu, vísindalegri þekkingu og skilningi á náttúrunni og gangverki hennar. Ef við þekkjum ekki umhverfi okkar er hætt við að illa fari – að náttúran beri skaða af, auðlindir fari forgörðum, rýrni og hverfi jafnvel fyrir fullt og allt. Samfélög manna sem ekki kunna að fara með náttúru lands síns liðast í sundur, veiklast og kunna að tapa sjálfstæði sínu.

Það er hér sem kemur til kasta Náttúruminjasafns Íslands en meginhlutverk stofnunarinnar er lögum samkvæmt að miðla þekkingu og fróðleik um náttúru Íslands, náttúrusögu, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd með sýningahaldi, útgáfu og öðrum hætti. Náttúruminjasafnið er jafnframt svokallað höfuðsafn, sem skal gegna sambærilegri stöðu og hin tvö höfuðsöfn landsins, Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands, þ.e. að vera leiðandi stofnun og ráðgefandi meðal safna í landinu sem sýsla með náttúruarfinn.

Ályktun Alþingis um uppbyggingu Náttúruminjasafnsins í tilefni af aldarafmæli fullveldisins er afar þýðingarmikil og ánægjuleg. Stofnunin er ung í lagalegum skilningi, sett á laggirnar árið 2007, en rætur hennar ná aftur á ofanverða 19. öld þegar forveri safnsins, Hið íslenska náttúrufræðifélag, var stofnað árið 1889. Allar götur síðan hefur verið barist fyrir byggingu safnahúss í náttúrufræðum sem hæfir landi og þjóð, en hægt gengið. Það er því vel við hæfi á 100 ára fullveldisafmælinu að þjóðin fái að gjöf öflugt Náttúruminjasafn, nær 130 árum eftir að fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir því.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×