Erlent

Búist við milljón manns á mótmælum þar sem krafist er afsagnar forseta Suður-Kóreu

Anton Egilsson skrifar
Park Geun-Hye, forseti Suður-Kóreu, er sögð tengjast stóru spillingarmáli.
Park Geun-Hye, forseti Suður-Kóreu, er sögð tengjast stóru spillingarmáli. Vísir/EPA
Búist er við að hátt í milljón manns sæki mótmæli á götum Seoul borgar í Suður-Kóreu þar sem krafist er afsagnar Park Geun-Hye, forseta landsins, sem talin er tengjast stóru spillingarmáli. Fréttaveitan Guardian greinir frá því að tugþúsundir hafi safnast saman nú þegar.

Lögreglan hafði gert ráð fyrir að um 170 þúsund manns myndu sækja á mótmælin en skipuleggjendur þeirra telja að hátt í milljón manns muni láta sjá sig.

Mótmælin koma í kjölfar þess að aðstoðarmaður forsetans, Choi Soon-sil sem er vinkona forsetans til 40 ára. hefur verið handtekin og sett í gærsluvarðhald vegna ásakana sem hafa bein tengsl við forsetann.

Er Choi talin hafa beitt óæskilegum áhrifum á hina 64 ára gömlu Park en talið er að hún hafi notað vinskap sinn við forsetann til að hafa áhrif á framgang í ríkismálum og til að hagnast ólöglega á tveimur góðgerðarsamtökum.

Park sem hefur verið forseti Suður Kóreu seinastliðin fjögur ár hefur í liðinni viku tvívegis beðið þjóðina formlegrar afsökunar vegna málsins. Ekki virðast þó allir tilbúnir til að fyrirgefa.

„Ég er hér til að krefjast afsagnar Park Geun Hye. Afsökunarbeiðnir hennar eru tilgangslausar. Hún verður að stíga til hliðar.“ Sagði einn þeirra sem mættur var til að mótmæla í Seoul í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×