Erlent

Forsetakosningar í Frakklandi: Le Pen myndi vinna Sarkozy

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Leiðtogi Front National, Marine Le Pen
Leiðtogi Front National, Marine Le Pen mynd/getty
Marine Le Pen, leiðtogi stjórnmálaflokksins Front National myndi vinna fyrrum forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy í forsetakjöri með átta prósenta mun ef marka má niðurstöður sem gerðar voru af Ipsos.

Forsetakosningarnar munu fara fram í apríl á næsta ári og mun þá koma í ljós hver tekur við keflinu af núverandi Frakklandsforseta, François Hollande. 

Í könnuninni var fimm mismunandi aðstæðum ólíkra frambjóðenda stillt upp en forval hefur ekki enn farið fram í öllum flokkum. Úrslita úr forvali flokks Sarkozy, Les républicains, má vænta í kvöld. Valið stendur á milli sjö frambjóðenda en eru Sarcozy, Alain Juppé borgarstjóri Bordeaux og François Fillon fyrrum forsætisráðherra Frakklands taldir sigurstranglegastir.

Af þeim þremur þykir líklegast að Juppé muni standa með pálmann í höndunum.

Sjá einnig: Juppé líklegastur til þess að verða forsetafni franskra Repúblíkana

Ef enginn frambjóðandanna nær hlýtur fimmtíu prósenta fylgi eða meira verður kjörið endurtekið þann 27. nóvember.

Möguleiki er á að fyrrum forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, taki við af Hollande í vor. Sarkozy tapaði fyrir Hollande í kosningunum 2012.mynd/getty
Sarkozy hefur haldið því fram að til þess að sameina Frakkland á ný þurfi að herða innflytjendalöggjöf til muna og berjast gegn herskáum íslamistum. Öfgafull orðræða hans hefur orðið til þess að hann hefur misst brautargengi sitt meðal stuðningsmanna Les Républicains sem lengra eru inni á miðju.

Flokkur Marine Le Pen, Front National er þjóðernissinnaður hægriflokkur en faðir hennar, Jean-Marie Le Pen stofnaði flokkinn árið 1972. Marine tók við af föður sínum sem leiðtogi flokksins árið 2011. 

Frá því Marine Le Pen tók við forystu Front National hefur flokkurinn sótt í sig veðrið en í sveitarstjórnarkosningunum 2014 náði hann sögulegu kjöri, en sigurinn var í samræmi við uppgang þjóðernissinnaðra flokka víða í Evrópu. Meðal helstu stefnumála Front National er strangari innflytjendalöggjöf, þyngri refsingar og verndunarstefna í fjármálum.

Sjá einnig: Le Pen vill taka upp dauðarefsingu í Frakklandi

Le Pen bauð sig fram í síðustu forsetakosningum, ásamt Sarkozy og Hollande og hlaut hún 17,9 prósent atkvæða.





Alain Juppé þykir sigurstranglegastur í forvali Les rébublicains.
Fjölmiðlar og stjórnmálafræðingar í Frakklandi hafa hingað til talið að líkurnar á að Le Pen takist að hreppa forsetaembættið séu afar litlar. Eftir kjör Donalds Trump í Bandaríkjunum virðist þó nú sem allt sé mögulegt.

„Ef sigur Trump var mögulegur, þá er allt mögulegt,“ sagði franski heimspekingurinn Bernard-Henri Levy í samtali við The Telegraph. „Þótt ekki séu miklar líkur á því að Le Pen sigri, þá er það mögulegt og ástæðan fyrir því er að sumu leyti sú að fólk hefur misst áhuga á stefnumálum og farið í auknum mæli að einblína á persónuleika stjórnmálafólks.“

Levy bætti því við að fólk hefði áhuga á stjórnmálum sem væru eins og leikhús og gerði meiri kröfur til skemmtanagildis en sannleika.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×