Erlent

Kaczynski fetar í fótspor Orbans

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þingmenn pólska íhaldsflokksins Lög og réttlæti fagna niðurstöðu atkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá 22. desember síðastliðinn. Beate Szydlo forsætisráðherra og Jaroslaw Kaczynski flokksleiðtogi í fremstu röð fyrir miðju.
Þingmenn pólska íhaldsflokksins Lög og réttlæti fagna niðurstöðu atkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá 22. desember síðastliðinn. Beate Szydlo forsætisráðherra og Jaroslaw Kaczynski flokksleiðtogi í fremstu röð fyrir miðju. vísir/epa
Þeir Viktor Orban og Jaroslaw Kaczynski, forsætisráðherrar Ungverjalands og Póllands, hittust á miðvikudaginn í bænum Niedzica, sem er syðst í Póllandi, rétt við landamæri Slóvakíu.

Báðir hafa þeir farið óskaplega í taugarnar á ráðamönnum Evrópusambandsins og flestra aðildarríkja þess. Báðir hafa þeir notað aðstöðu sína til þess að styrkja völd sín, með afar umdeildum hætti.

Kaczynski er leiðtogi pólska íhaldsflokksins Lög og réttlæti, sem vann mikinn kosningasigur í október og fer nú með völdin í landinu. Flokkssystir Kaczynskis, Beate Szydlo, er forsætisráðherra en sjálfur ræður hann miklu þótt hann hafi haldið sig dálítið til hlés í kosningabaráttunni.

Þau Kaczynski og Szydlo biðu ekki boðanna því flokkurinn var varla kominn til valda á ný þegar þingið samþykkti afar umdeildar breytingar á lögum um stjórnlagadómstól landsins.

Lamaður stjórnlagadómstól

Breytingarnar tryggja að stjórnlagadómstóllinn eigi erfiðara með að fetta fingur út í lagasetningar nýja þingmeirihlutans.

Hér eftir þurfa nefnilega tveir af hverjum þremur dómurum dómstólsins að standa að baki úrskurðum, en áður nægði einfaldur meirihluti – eins og venjulega tíðkast hjá dómstólum.

Þar með er dómstóllinn í reynd orðinn frekar máttlaus stofnun, en Kaczynski hefur harðlega gagnrýnt stjórnlagadómstólinn og sagt hann eitt af því versta sem til er í pólsku samfélagi.

Þessi lög voru afgreidd rétt fyrir áramótin, þann 28. desember. Sama dag fékk þingið til afgreiðslu ný lög um ríkisfjölmiðla, sem eiga að tryggja að þeir verði stjórnvöldum almennt leiðitamari en verið hefur.

Hert tök á ríkisfjölmiðlum

Fjölmiðlalögin voru samþykkt tveimur dögum síðar. Forseti landsins, Andzrej Duda, staðfesti þau síðan á fimmtudaginn.

Duda var flokksbróðir Kacz­inskys og Szydlo þangað til hann sagði sig úr flokknum síðasta vor, eftir að hafa unnið sigur í forsetakosningum.

Samkvæmt hinum nýju fjölmiðlalögum fær fjármálaráðherra Póllands það hlutverk að ráða yfirmenn ríkisrekinna útvarps- og sjónvarpsstöðva. Þar með getur hann einnig rekið yfirmenn þessara fjölmiðla.

Hótanir Evrópusambandsins

Evrópusambandið brást harðlega við lagabreytingunum, segir þær grafa undan meginreglum réttarríkis í Póllandi og hótar refsiaðgerðum. Málið verður tekið til umræðu á fundi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í næstu viku.

„Það mælir margt með því að við virkjum nú réttarríkisregluna og setjum pólsk stjórnvöld undir eftirlit,“ sagði Günther Oettinger, sem fer með málefni fjölmiðla í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í viðtali við þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine.

Verði þetta samþykkt verða pólskir ráðamenn kallaðir til viðræðna um lagfæringar, og láti þeir sér ekki segjast verða þeir sóttir til saka fyrir brot gegn meginreglum Evrópusambandsins. Refsingin gæti orðið sú, að Pólland fái ekki að taka þátt í atkvæðagreiðslum á vettvangi Evrópusambandsins.

Aldrei hefur komið til þess að Evrópusambandið beiti aðildarríki refsingu af þessu tagi, en heimild til þess er ekki gömul. Hún er frá árinu 2014 og byggð á 7. grein Lissabonsáttmálans.

Ungverska fordæmið

Hinn ungverski Orban hefur reynslu af svipuðum átökum við Evrópusambandið.

Fljótlega eftir að Orban komst til valda árið 2010 samþykkti hægriflokkur hans, Fidesz, ýmsar lagabreytingar sem mörgum þykja harla ólýðræðislegar og þjóðrembulegar.

Flokkurinn hafði fengið tvo þriðju atkvæða og Orban leit svo á að kjósendur hefðu gert byltingu. Hann hefði því fullt umboð til að breyta stjórnarskránni, og gerði það strax árið eftir.

Þær breytingar fólu meðal annars í sér, rétt eins og í Póllandi núna, að dregið var úr áhrifum stjórnlagadómstóls landsins. Mikil áhersla var lögð á kristindóm, föðurlandsást og gamlar hefðir. Auk þess var hjónabandið afdráttarlaust skilgreint sem hjónaband karls og konu.

Fyrir utan stjórnarskrárbreytinguna setti nýja þingið ýmis lög, sem sögð voru brjóta gegn lýðræði og frelsi borgaranna með ýmsum hætti. Þar á meðal fjölmiðlalöggjöf sem rétt eins og í Póllandi herti tök ríkisvaldsins á ríkisreknum fjölmiðlum.

Ungverjar drógu í land

Mannréttindasamtök gagnrýndu þetta allt saman harðlega og Evrópusambandið tók fljótlega við sér.

„Sum af þessum lögum geta verið brotleg gegn lögum og meginreglum Evrópusambandsins,“ sagði til dæmis Jose Manuel Barroso, þáverandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, í janúar árið 2012.

Harðorð bréfaskipti og hótanir um refsiaðgerðir af hálfu ESB urðu til þess að haustið 2013 dró ungverska þingið til baka að hluta hinar umdeildu breytingar sínar á stjórnarskránni og fleiri lagabreytingar, sem ESB sagði stangast á við grundvallarreglur sambandsins.

Ungverska stjórnin sagði þetta gert til þess að „ekki verði hægt að nota tiltekin stjórnarskráratriði sem átyllu til þess að gera fleiri atlögur að framförum í Ungverjalandi“.

Fundurinn í Niedzica

Þeir Orban og Kaczynski sátu að fundum og snæðingi í sex klukkustundir á gistihúsinu í Niedzica á miðvikudaginn, en fátt er vitað um hvað þeim fór á milli.

Fjölmiðlar hafa getið sér þess til að hótanir Evrópusambandsins hafi borið á góma. Orban hefur reynsluna og þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung segir að hann gæti hafa fullvissað Kaczynski um að þótt ESB gelti stundum hátt þá bíti það aldrei.

Pólskir fjölmiðlar hafa óspart vitnað í þessar þýsku vangaveltur.

Evrópusambandið virðist líka hafa áhyggjur af því að með hótunum skapi það sér óvinsældir í Póllandi. Að minnsta kosti dró Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, heldur í land á blaðamannafundi á fimmtudaginn:

„Við skulum nú ekki blása þetta mál út,“ sagði hann. „Þetta er mikilvægt mál, en við verðum að halda vinsamlegum og góðum tengslum við Pólland. Við nálgumst þetta á mjög uppbyggilegan hátt. Við erum ekkert að fara illa með Pólland.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×