Erlent

Telja sig hafa fundið felustað hryðjuverkamanna í Brussel

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Abdeslam er talinn hafa keyrt einn mannanna sem sprengdi sjálfan sig í loft upp við Stade de France að kvöldi 13. nóvember.
Abdeslam er talinn hafa keyrt einn mannanna sem sprengdi sjálfan sig í loft upp við Stade de France að kvöldi 13. nóvember. Vísir/EPA
Belgískir saksóknarar telja sig hafa fundið íbúð í Brussel þar sem einn af þeim sem grunaðir eru um aðild að hryðjuverkaárásunum í París í nóvember faldi sig.

Lögreglan fann sprengiefni, sprengjuvesti og fingraför Salah Abdeslam í íbúðinni. Abdeslam er á flótta undan lögreglunni en hann er grunaður um að hafa tekið þátt í árásunum. Þó er ekki talið að hann hafi dvalið í íbúðinni að staðaldri heldur annar maður sem er í haldi lögreglunnar og leigði íbúðina á fölsku nafni.

Enn er óljóst hvaða hlutverk Abdeslam hafði í árásunum í París en hann er Frakki sem fæddist í París.

Talið er að Abdeslam hafi leigt bíl í Belgíu sem síðar fannst við Bataclan-tónleikahöllina í París þar sem 89 manns létust í skotárás hryðjuverkamannanna. Þá er einnig talið að Abdeslam hafi leigt annan bíl og bókað tvö hótelherbergi fyrir utan París skömmu fyrir árásirnar.

Alls létust 130 manns í árásunum sem vöktu mikinn óhug, ekki aðeins í Frakklandi heldur víðar um heim.


Tengdar fréttir

Leitin heldur áfram í Belgíu

Lögreglan í Belgíu hafði í gær ekki haft uppi á ­Salah Abdeslam, þrátt fyrir dauðaleit í Brussel sólarhringum saman. Frakklandsforseti er á fleygiferð um heiminn að safna liði gegn Daish-samtökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×