Erlent

Flórída undirbýr fyrstu aftöku ársins í Bandaríkjunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Oscar Ray Bolin var fundinn sekur um 3 morð árið 1986.
Oscar Ray Bolin var fundinn sekur um 3 morð árið 1986. vísir/afp
Fyrsti fanginn til að verða tekinn af lífi í Bandaríkjunum árið 2016 er hinn 53 ára gamli Oscar Ray Bolin. Aftakan fer fram í kvöld, klukkan 22 að íslenskum tíma, og notast verður við banvæna blöndu lyfja. 

Bolin, sem situr í fangelsi í Flórída-ríki, var fundinn sekur um að hafa myrt þrjár konur fyrir þrjátíu árum síðan. Hann hlaut þrefaldan dauðadóm, einn fyrir hvert morð. Fram kemur í frétt Newsweek um málið að fjölskyldumeðlimum kvennanna finnst dauði hans löngu tímabær.

„Þetta verða, að ákveðnu leyti, málalyktir,“ segir Kathleen Reeves, móðir einna kvennanna, í samtali við Associated Press. „Það er orðið svo langt síðan. Sársaukinn breytist ekki. Þetta er bara tímabært.“

Heldur fram sakleysi sínu

Til dagsins í dag, þrátt fyrir að hafa 10 sinnum verið fundinn sekur af 10 mismunandi hópum kviðdómara, hefur Bolin haldið fram sakleysi sínu.

„Ég þekkti þær ekki, aldrei séð þær, aldrei hitt þær,“ sagði Bolin um fórnarlömbin þrjú í samtali við Fox 13 í gær, þegar um 24 stundir voru í aftöku hans. Aftakan fer fram í ríkisfangelsinu í Starke í Florída. Bolin sagði í samtali við Tampa sjónvarpsstöðina að sönnunargögnunum gegn honum hafi ýmist verið komið fyrir eða að átt hafi verið við þau. „Samviska mín er hrein,“ sagði Bolin og bætti við að réttlætinu yrði ekki fullnægt með því að taka hann af lífi. „Flórída er bara að drepa mig.“

Öll fórnarlömb Bolins, sem myrt voru árið 1986, hurfu áður en lík þeirra fundust aftur – þakin stungusárum.

Á þriðja tug fanga voru teknir af lífi í Bandaríkjunum á síðasta ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×