Skoðun

Hjálparstarf er tímafrek samvinna ef ná á árangri

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hvað gefur maður þeim sem á allt? Jú, auðvitað geit handa fátækri fjölskyldu í Afríku!“ hljóðaði kveðja frá einum kaupanda gjafabréfs Hjálparstarfs kirkjunnar nú fyrir jólin. Hjálparstarfið reiðir sig á framlög frá almenningi til þess að fjármagna aðstoð við fólk sem býr við fátækt og vegna hennar við skort á lífsgæðum. Ein leið fjármögnunar er að selja gjafabréfin Gjöf sem gefur.

Sumir þeirra sem kaupa gjafabréfin okkar spyrja hvort gjöfin komist örugglega á réttan stað. „Fer geitin örugglega til Úganda?“ er spurt. Ég gef mér að með spurningunni sé í raun verið að spyrja hvort hjálparstarf skipti nokkru máli. Hvort það breyti einhverju fyrir þann sem aðstoðina fær til lengri tíma? Neyðin virðist stundum svo endalaus.

Hjálparsamtök verða stöðugt að endurskoða hvort aðferð í starfi skili raunverulegum árangri. Reynslan hefur kennt okkur að vænlegast er að fólk sem þarfnast aðstoðar taki þátt í að finna lausnir við vandanum sem það stendur frammi fyrir. Notendastýrð þjónusta reynist best í hjálparstarfi eins og í svo mörgu öðru.

Á Íslandi leggur Hjálparstarfið áherslu á sértæka aðstoð enda hafa almenn og opinber úrræði ekki dugað þeim sem til okkar leita til að ráða fram úr aðsteðjandi vanda. Við aðstoðum fólk vissulega með inneignarkortum í matvöruverslanir en til þess að takast á við rætur fátæktar og félagslegrar einangrunar felst aðstoðin líka í vinnu með skjólstæðingunum sem miðar að því að styrkja sjálfsmynd þeirra og þar með efla getu þeirra til að takast á við daglegt líf. Í verkefnum erlendis er aðstoðin efnisleg en skjólstæðingarnir bera ábyrgð á framkvæmd verkefnanna og njóta afraksturs eigin vinnu.

Afríska máltækið „Ef þú vilt fara hratt yfir skaltu ferðast einn. Ef þú vilt fara langt skaltu ferðast með öðrum“ á vel við til að lýsa árangursríku hjálparstarfi en til þess að aðstoð beri árangur þarf að gefa henni tíma því hún er samvinnuverkefni um hjálp til sjálfshjálpar.




Skoðun

Sjá meira


×