Skoðun

Áramótaheit strengd

Halldóra Gyða Matthíasdóttir skrifar
Það er gamall íslenskur siður að strengja heit um áramót. Áramótaheitin eru oft tengd því að láta af ósiðum eða koma á góðum. Tilefnin geta verið ólík og efndir einnig.

SMART markmið

Áramótaheit eru ekkert annað en markmiðasetning. Til að ná árangri er gott að nota SMART-aðferðafræðina sem stendur fyrir: Sérstakt (e. Specific), Mælanlegt (e. Measurable), Ásættanlegt (e. Acceptable), Raunhæft (e. realistic) og Tímasett (e. Time Frame.)

Markmiðið verður að vera tengt einhverju sérstöku, til dæmis að kaupa sér árskort í ræktina og mæta þrisvar sinnum í viku. Gott er að markmiðið sé mikilvægt og undir stjórn þess sem setur sér það.

Það verður að vera hægt að mæla árangur. Það er mjög auðvelt að mæla hvort maður hafi mætt í ræktina þrisvar sinnum í viku.

Markmiðið verður að vera aðlaðandi, þú verður að geta og langa til að ná markmiðinu. Þú verður til dæmis að gefa þér tíma og velja þér líkamsrækt við hæfi.

Það er mjög mikilvægt að setja sér raunhæft markmið. Það er til dæmis ekki raunhæft að ætla að mæta fimm sinnum í líkamsrækt á viku, ef maður hefur ekki hreyft sig lengi.

Til að geta mælt árangur er nauðsynlegt að setja lokatíma til að mæla árangur. Í hversu marga mánuði ætlar þú að mæta þrisvar sinnum í viku?

Skrifa niður og deila

Það er gott að skrifa SMART-markmiðin og deila með þeim sem maður treystir. Það að sjá markmiðin skrifuð á blað hjálpar þegar sá tími kemur að við verðum löt. Þá er bara að drífa sig út um húsdyrnar sem er oft erfiðasti þröskuldurinn.

Eftirfylgni og mat á árangri

Margir eru duglegir að setja sér markmið og fara af stað en svo gleymist eftirfylgni og mat á árangri. Það er gott að eiga góða að sem eru duglegir að fylgja manni eftir. Hvetjið endilega þá sem þið deilið markmiðunum með að fylgjast með ykkur og ýta við ykkur þegar þið þurfið á því að halda. Gangi ykkur vel og hafið gleðina að leiðarljósi.




Skoðun

Sjá meira


×