Erlent

Vilja að Svíar prófi borgaralaun

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Vinnutekjur leggjast ofan á borgaralaun án nokkurra skerðinga.
Vinnutekjur leggjast ofan á borgaralaun án nokkurra skerðinga. NORDICPHOTOS/AFP
Sérfræðingar sem leggja eiga grunninn að tilraun finnskra stjórnvalda til að koma á borgaralaunum segja í aðsendri grein í Sænska dagblaðinu að það yrði ánægjuefni ef Svíar myndu sjálfir gera slíka tilraun eða taka þátt í þeirri finnsku.

Um er að ræða skilyrðislausa grunnframfærslu sem felur í sér að allir fá greidda lágmarksupphæð frá ríkinu. Bótakerfi verða aflögð og þar með sparast vinna opinberra stofnana. Vinnutekjur leggjast ofan á borgaralaun. Ekki er gert ráð fyrir neinum skerðingum.

Áætlun um fyrirkomulagið á að liggja fyrir í Finnlandi í nóvember á þessu ári. Tilraunin á að standa yfir í eitt ár og hefjast árið 2017. Rætt er um að borgaralaunin muni nema um 800 evrum á mánuði eða sem samsvarar 112 þúsundum íslenskra króna.

Sérfræðingarnir benda á að margar tilraunir hafi verið gerðar með borgaralaun, einkum í þróunarlöndum. Nefna þeir Indland og Namibíu í því samhengi. Jafnframt benda þeir á tilraunir sem gerðar voru í Bandaríkjunum og Kanada á áttunda áratug síðustu aldar. Niðurstöðurnar hafi verið áhugaverðar en ekki sé beinlínis hægt að nýta þær í norrænum nútímasamfélögum.

Í Hollandi er í fjórum borgum ráðgert að láta tilraunahópa, sem fá framfærslustyrk frá sveitarfélögum, fá borgaralaun í staðinn. Meta á síðan virkni þessara borgara í kjölfarið.

Á Íslandi hafa þingmenn Pírata lagt fram þingsályktunartillögu um borgaralaun eða skilyrðislausa grunnframfærslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×