Skoðun

Ekki skal vanmeta framsóknarmann!

Árni Hermannsson skrifar
Eitthvert dapurlegasta skeiðið í sögu landsins á fyrstu áratugum lýðveldisins er sagan af samskiptum stjórnvalda við vinaþjóðir í Evrópu og bandalagsríkin í Nató.

Á eftirstríðsárunum tókst með galinni hagstjórn að glutra niður vænlegri stöðu þjóðarbúsins og endaði loks með því að á 6. áratugnum, þótt lífskjör væru betri hér á landi (án þess að vera nokkuð sérstök) en víðast hvar í Evrópu, þá gengu Íslendingar með betlistaf hvað eftir annað á fund nágrannaríkja í leit að lánum, m.a. til Þýskalands og Englands þar sem flest var í rúst eftir hildarleikinn mikla.

Meðal vinaþjóða í Nató tókst ekki betur til. Íslendingar voru áhugalitlir um samstarfið nema þegar kom að aurum og framkvæmdum á vegum samtakanna en þá sperrtu þeir eyrun sem aldrei fyrr. Þetta lágrisa viðhorf varð til þess, að það orð fór af Íslendingum að þeir væru tækifærissinnaðir bandamenn. Um þetta má fræðast nánar af stórmerku riti Vals Ingimundarsonar, „Í eldlínu kalda stríðsins“.

Þá skal í annan stað ekki reynt að tíunda orðsporið sem fór af Íslendingum á alþjóðavettvangi fyrir 2008.

Það virðist helst þessa dagana vera utanríkisráðherrann, Gunnar Bragi, sem stendur einarður gegn því að látið verði af viðskiptabanni gegn Rússum sem fara med yfirgangi í fyrrum leppríki sínu og verður vart séð að munurinn sé nema stigs en ekki eðlis á leiðtoganum Pútin og Jósef gamla Dsjúgasjvili. Innan stjórnarliðsins og stjórnarandstöðu hérlendis eru menn ekki á einu máli. En allt er þegar þrennt er og væri svo sem eftir öðru að hlaupast undan merkjum og láta prinsipp lúta í lægra haldi fyrir aurunum.

Auðvitað ber að styðja smærri útgerðir og vinnuaflið í dreifðum byggðum landsins þegar bjátar á og markaðir lokast en allsráðandi stórútgerðaraðilum (sem helst gefa starfsmönnum sínum íspinna í kaupbæti þegar þeir skammta sér milljarðana) þarf ekki að vorkenna en skal í bili bent á að lesa nýútkomna bók Bills Browders – „Eftirlýstur“ – en þar geta þeir lesið um stjórnarhætti í ríkinu, sem þeir vilja ólmir fella niður viðskiptabannið á.




Skoðun

Sjá meira


×