Erlent

Grunuð um að hafa orðið þrettán ára dóttur sinni að bana

Bjarki Ármannsson skrifar
Stúlkan fannst látin í sumarbústaði í héraðinu Valdres. Myndin er ekki af bústaðnum sem um ræðir.
Stúlkan fannst látin í sumarbústaði í héraðinu Valdres. Myndin er ekki af bústaðnum sem um ræðir. Vísir/GoogleMaps/Getty
Norsk kona á fimmtugsaldri er í haldi lögreglu í héraðinu Valdres, en hún er grunuð um að hafa orðið þrettán ára dóttur sinni að bana. Stúlkan fannst látin í sumarbústað á gamlárskvöld og er sögð hafa verið vannærð og illa haldin.

Þetta kemur fram í fréttum norska fjölmiðilsins VG um málið. Það var móðirin sjálf sem hringdi í neyðarlínuna á gamlárskvöld og þegar sjúkralið mætti á vettvang var stúlkan strax úrskurðuð látin.

Julie Dalsveen, talsmaður lögreglu, segir að sjúkraliðið hafi um leið látið lögreglu vita að andlátið liti út fyrir að hafa borið að með saknæmum hætti.

Stúlkan hefur ekki gengið í skóla í vetur og segja kunningjar hennar að hún hafi glímt við átröskun um hríð. Móðirin hefur verið ákærð fyrir vanrækslu en hefur ekki verið yfirheyrð að svo stöddu. Hún var vistuð á geðdeild eftir handtöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×