Erlent

Mikill viðbúnaður í München í nótt vegna hryðjuverkaógnar

Una Sighvatsdóttir skrifar
Lögreglan í München óskaði í gærkvöldi eftir liðsauka frá öðrum lögregluembættum vegna hryðjuverkaógnar og voru hátt í 550 lögreglumenn á götum borgarinnar þegar mest lét, sumir þeirra þungvopnaðir. Aðallestarstöð München var lokað um tíma fyrir miðnætti í gær.
Lögreglan í München óskaði í gærkvöldi eftir liðsauka frá öðrum lögregluembættum vegna hryðjuverkaógnar og voru hátt í 550 lögreglumenn á götum borgarinnar þegar mest lét, sumir þeirra þungvopnaðir. Aðallestarstöð München var lokað um tíma fyrir miðnætti í gær. Vísir/AFP
Mikill viðbúnaður var í München í Þýskalandi á nýársnótt vegna viðvörunar um yfirvofandi hryðjuverk. Talið er að hópur manna tengdir íslamska ríkinu hafi haft árás á borgina á prjónunum og er þeirra nú leitað. Hert öryggisgæsla var einnig í fleiri evrópskum borgum.

Lögreglan í München óskaði í gærkvöldi eftir liðsauka frá öðrum lögregluembættum vegna hryðjuverkaógnar og voru hátt í 550 lögreglumenn á götum borgarinnar þegar mest lét, sumir þeirra þungvopnaðir.

Ábendingar höfðu borist bæði frá þýsku leyniþjónustunni og erlendum leyniþjónustum um að árás gæti verið yfirvofandi á miðnætti. Þetta er í annað sinn í vetur ábendingar berast um alvarlega hryðjuverkaógn í Þýskalandi, því í nóvember var vináttulandsleik Þýskalands og Hollands í Hannover aflýst af ótta við hryðjuverk.

Innanríkisráðherra Bæjaralands, Joachim Herrmann, boðaði til blaðamannafundar í nótt vegna viðbúnaðarins í München og er haft eftir honum á vef Deutsche Welle að traustar vísbendingar séu um að fimm til sjö menn, með hugsanleg tengsl við samtökin Ríki íslams, hafi lagt á ráðin um hryðjuverk í borginni.

Lögregla er sögð vita nöfn mannanna, sem eru af írökskum uppruna, og er þeirra nú leitað.

Aðallestarstöð München var lokað um tíma fyrir miðnætti í gær. Um lestarstöðina lá stríður straumur sýrlenskra flóttamanna síðasta sumar og birtust fréttamyndir frá lestarstöðinni um allan heim þegar hundruð íbúa München mættu þangað til að bjóða flóttafólkið velkomið og sýna því stuðning.

Formaður þýsku öfgasamtakanna PEGIDA fór mikinn á Twitter í nótt og kenndi þeim sem sýndu flóttafólki velvilja um að bera ábyrgð á hryðjuverkaógninni. Ummæli hans voru fordæmd harkalega af þýskum netverjum í nótt, samkvæmt vef Deutsche Welle. Flestir íbúar München létu ótta við hryðjuverk ekki hamla sér frá því að fagna nýja árinu og var flugeldum skotið upp um alla borg á miðnætti.

Opnað var fyrir lestarumferð að nýju þegar leið á nóttina enda talið að mesta ógnin væri liðin hjá. Í Brussel var skipulögðum flugeldasýningum á nýársnótt hinsvegar aflýst þar sem talin var hætta á hryðjuverkum.

Aukinn viðbúnaður var einnig í fleiri evrópskum borgum á nýársnótt, þar á meðal Vínarborg, London, Berlín og í Moskvu, þar sem Rauða torginu var í fyrsta sinn lokað fyrir nýársfögnuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×