Erlent

Kallaði Erdogan „einræðisherra í vasastærð“

Atli Ísleifsson skrifar
Kemal Kilicdaroglu er leiðtogi CHP, stærsta stjórnarandstöðuflokks Tyrklands.
Kemal Kilicdaroglu er leiðtogi CHP, stærsta stjórnarandstöðuflokks Tyrklands. Vísir/AFP
Saksóknari í Tyrklandi rannsakar nú hvort leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins, CHP, hafi gerst sekur um meiðyrði eftir að hann kallaði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta „einræðisherra í „vasastærð““.

Kemal Kilicdaroglu lét orðin falla þegar hann mótmælti því að um þriðja tug fræðimanna hafi verið handteknir í mótmælaaðgerðum gegn ofbeldishrinunni í austurhluta Tyrklands. Hersveitir stjórnarhersins hafa þar gengið hart fram gegn uppreisnarhópum Kúrda (PKK).

Í frétt SVT kemur fram að saksóknarinn segi að Kilicdaroglu sé grunaður um að hafa móðgað forsetannm en tyrknesk lög gera ráð fyrir fjögurra ára hámarksrefsingu við slíkum brotum.

Kilicdaroglu nýtur friðhelgi í krafti stöðu sinnar sem þingmanns, en getur misst friðhelgina, kjósi meirihluti þingsins fyrir slíku. AKP-flokkur Erdogans forseta er með meirihluta þingmanna á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×