Erlent

Wallström sökuð um spillingu

Atli Ísleifsson skrifar
Margot Wallström tók við embætti utanríkisráðherra Svíþjóðar haustið 2014.
Margot Wallström tók við embætti utanríkisráðherra Svíþjóðar haustið 2014. Vísir/AFP
Sænsk yfirvöld kanna nú hvort rétt sé að formleg rannsókn fari fram í máli Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem hefur verið sökuð um spillingu eftir að hún skrifaði undir húsaleigusamning við verkalýðsfélagið Kommunal.

Wallström skrifaði undir leigusamninginn þann 18. apríl á síðasta ári, en hafði tekið við embætti utanríkisráðherra Svíþjóðar um hálfu ári fyrr.

Fréttastofan TT, sem hefur séð leigusamninginn, segir Wallström hafa fengið aðgang að íbúðinni, sem er í Stokkhólmi, vegna stöðu sinnar sem ráðherra.

Kommunal er stærsta verkalýðsfélag Svíþjóðar og á fleiri íbúðir í miðborg Stokkhólms. Biðtími eftir íbúðunum er langur og er Wallström sökuð um að hafa komist fram fyrir í röðinni í krafti stöðu sinnar sem utanríkisráðherra.

Wallström segist sjálf hafa fengið villandi upplýsingar frá Kommunal.

Þungavigtarmenn innan stjórnarandstöðuflokksins Moderaterna hafa lýst yfir þeirri skoðun að Wallström eigi af segja af sér vegna málsins. Stefan Löfven forsætisráðherra segist þó bera fullt traust til ráðherrans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×