Innlent

Forstjóri Haga segir fyrirtækið koma hvergi nærri áfengisfrumvarpinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir alrangt að Hagar hafi haft einhverja aðkomu að áfengisfrumvarpinu. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í þættinum Sprengisandi, að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði tjáð sér að fyrirtækið hefði samið áfengisfrumvarpið.
Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir alrangt að Hagar hafi haft einhverja aðkomu að áfengisfrumvarpinu. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í þættinum Sprengisandi, að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði tjáð sér að fyrirtækið hefði samið áfengisfrumvarpið. Vísir/GVA
„Sú aðdróttun sem kom fram í umræddum útvarpsþætti er ómakleg og ósönn,“ segir Finnur Árnason, forstjóri verslunarfyrirtækisins Haga, í tilkynningu til fjölmiðla vegna ummæla Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. 

Þar ræddi Kári áfengisfrumvarpið svokallaða sem Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fyrir Alþingi. Sagðist Kári hafa hitt þingmann Sjálfstæðisflokksins í verslunarmiðstöð í gær sem hélt því fram að Vilhjálmur hefði ekki samið frumvarpið heldur verslunarfyrirtækið Hagar sem rekur meðal annars Bónus og Hagkaup.

Sjá einnig: Átök á Sprengisandi: Kári Stefánsson sagði kollega Vilhjálms hafa haldið því fram að Hagar hefðu samið áfengisfrumvarpið

Finnur segir í tilkynningunni Haga hafa engin afskipti af frumvarpinu og að engin samskipti hafi átt sér stað á milli Haga og Vilhjálms, né nokkur önnur samskipti, líkt og Vilhjálmur sagði sjálfur í Sprengisandi.

„Hagar styðja frumvarpið og telja það þjóðhagslega hagkvæmt.  Kostnaður ríkisins við sölu þessa vöruflokks mun minnka, hagkvæmni viðskiptavina mun aukast og Alþingi getur sett reglur um þá umgjörð sem þarf til að takmarka aðgengi, sé vilji til þess,“ segir Finnur. 


Tengdar fréttir

Snýr aftur með frumvarp um sölu áfengis

„Það stendur til að þetta verði forgangsmál okkar. Allir þingflokkar velja sín forgangsmál og ég á von á að þetta verði eitt þeirra,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Bitist um brennivín í búðir frá aldamótum

Frumvarp um frjálsa smásölu áfengis var fyrst lagt fram skömmu eftir aldamót. Deilt hefur verið um málið síðan þá og fjöldamörg frumvörp verið lögð fram sem öll hafa dagað uppi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×