Erlent

Bresk kona ákærð fyrir að ganga til liðs við ISIS

Tareena Shakil er 26 ára gömul.
Tareena Shakil er 26 ára gömul. mynd/West Midlands police
Réttarhöld yfir hinni bresku Tareenu Shakil, sem grunuð er um að hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin ISIS árið 2014, hófust í dag. Hún er sökuð um að hafa farið til Sýrlands, ásamt ungum syni sínum, með það fyrir augum að giftast liðsmanni samtakanna. Shakil er fyrsta breska konan sem ákærð er fyrir brot af þessu tagi.

Guardian greinir frá því að konan hafi meðal annars klætt son sinn í föt merktum vígasamtökunum og stillt honum upp með vopn fyrir myndatökur. Þá hafi hún jafnframt lýst yfir stuðningi sínum við samtökin á samfélagsmiðlum.

Shakil kvaddi fjölskyldu sína í október 2014 og sagðist vera á leið í frí til Tyrklands. Þaðan hélt hún til sýrlensku borgarinnar Raqqa, höfuðstöðva ISIS. Hún var svo handtekin á Heathrow flugvelli í London í febrúar í fyrra. Shakil sagði þó að henni hefði verið rænt, en tekist að sleppa úr klóm vígamannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×