Erlent

ISIS lýsir yfir ábyrgð á árásunum í Jakarta

Samúel Karl Ólason skrifar
Einn þeirra sem særðist í árásunum í morgun.
Einn þeirra sem særðist í árásunum í morgun. Vísir/EPA
Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum í Jakarta í Indónesíu í morgun. Samtökin segja árásarmennina hafa verið „hermenn kalífadæmisins“ sem hafi ráðist gegn borgurum „bandalags krossfara“. Þar vísa samtökin til bandalagsins sem berst gegn ISIS.

Fimm árásarmenn, þar af þrír með sprengjubelti, lögðu til atlögu í hverfi þar sem finna má verslunarmiðstöðvar, sendiráð og skrifstofur Sameinuðu þjóðanna. Árásarmennirnir féllu allir sem og tveir borgarar. Einn frá Indónesíu og annar frá Kanada.

Fyrsta árásin var gerð á Starbucks-stað þar sem einn árásarmannanna sprengdi sig í loft upp. Við það hlupu viðskiptavinir út þar sem tveir vopnaðir menn biðu þeirra og skutu á þau. Þar létust báðir áðurnefndir borgarar.

Sjá einnig: Segja árásarmennina hafa verið innblásna af hryðjuverkaárásunum í París

Skömmu eftir það keyrðu tveir menn á mótorhjólum að lögregluþjónum og sprengdu sig í loft upp. Fjórir lögregluþjónar eru í alvarlegu ástandi vegna sprenginganna.

Lögreglan skiptist á skotum við árásarmennina sem eftir voru og segir lögreglan að heimagerðum sprengjum hafi verið kastað að þeim. Skrúfum og nöglum hafði verið komið fyrir í sprengjunum og lögreglan fann sex aðrar sprengjur eftir að vígamennirnir höfðu verið felldir.

Mikil mildi þykir að fleiri hafi ekki fallið í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×