Skoðun

Sértu velkominn heim, yfir hafið og heim

Óttar Snædal skrifar
Við skulum gleðjast yfir því, Íslendingar, að ein okkar helsta áskorun skuli snúa að því hvað við erum farnir að lifa lengi. Auknar lífslíkur og lægri fæðingartíðni eru merki velmegunar en barneignum fækkar iðulega þegar þjóðir efnast. Þessi jákvæða þróun verður þess þó valdandi að hlutfallslega fækkar þeim sem eru á vinnufærum aldri og sjáum við fram á tilfinnanlegan skort á vinnuafli á komandi árum.

Við þessu er lausn. Gerum fólki í auknum mæli kleift að flytja hingað og starfa án þess að einblína á hvaðan það kemur. Lítum heldur til þess hvort viðkomandi finni sér starf enda er ekkert sem segir að besta fólkið fæðist innan EES-svæðisins. Slík stefna væri í senn mannúðarstefna en um leið skynsamleg og hagfelld öllum hlutaðeigandi. Líkt og með önnur viðskipti er ljóst að ráði einhver erlendan starfskraft þá vænkast hagur beggja og er fátt jafn truflandi fyrir óbreytta hagfræðinga og að sjá vinnuveitanda grátklökkan í sjónvarpinu vegna þess að starfsmanni hans var vísað úr landi.

Umræðan hverfist nú mjög í kringum fólk sem flýr stríðshrjáð svæði. Vissulega er það aðkallandi og flókinn vandi en á sama tíma er það staðreynd að fólk byrjaði ekki að drukkna í opnum bátum á Miðjarðarhafinu árið 2013. Sókn fólks frá fátækari ríkjum til Vesturlanda á sér mun lengri sögu, en leitað er þangað sem vinnuframlag er verðmeira og tækifæri meiri. Skortur á öðrum leiðum gerir bátana einfaldlega vænlegasta kostinn.

Líkt og með aðra haftastefnu er of ströng innflytjendalöggjöf okkur skaðleg. Jákvæð hagræn áhrif innflytjenda eru aftur á móti vel þekkt og skrásett en tilkomu þeirra er mætt með aukinni fjárfestingu, auknum umsvifum, og er það engin tilviljun að fjölbreytni er mikil í blómlegustu borgum heims. Áhrif innflytjenda hafa verið metin jákvæð á bæði hagvöxt og laun í stærri ríkjum og má ætla að hér á landi geti jákvæðu áhrifin verið umtalsvert meiri. Við erum fámenn þjóð með miklar auðlindir og jarðnæði og aukin stærðarhagkvæmni á ýmsum sviðum væri okkur mjög til góðs.

Engum dylst að ýmsir aðrir vinklar eru á móttöku innflytjenda en einungis hagrænir. Mistök eru til að læra af þeim og jafnvel betra er að læra af mistökum annarra. Standa þarf vörð um það sem gerir landið eftirsóknarvert en á sama tíma er það okkur í hag að marka almenna jákvæða stefnu gagnvart þeim sem vilja búa hér og starfa.




Skoðun

Sjá meira


×