Erlent

Noregur: Mánaðargömul stúlka í lífshættu eftir að foreldrar beittu hana ofbeldi

Atli ísleifsson skrifar
Foreldrar stúlkunnar komu með hana á læknavakt í Ósló á föstudaginn í síðustu viku og var þeim vísað beint á Ullevål háskólasjúkrahúsið. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Foreldrar stúlkunnar komu með hana á læknavakt í Ósló á föstudaginn í síðustu viku og var þeim vísað beint á Ullevål háskólasjúkrahúsið. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir7AFP
Fjögurra vikna gamalt stúlkubarn í Noregi er í lífshættu eftir að foreldrar þess beittu því ofbeldi.

Foreldrar stúlkunnar komu með hana á læknavakt í Ósló á föstudaginn í síðustu viku og var þeim vísað beint á Ullevål háskólasjúkrahúsið.

„Óljóst er hvort barnið muni lifa af, “ segir talsmaður lögreglunnar í Ósló í samtali við Verdens Gang.

Í frétt VG kemur fram að barnið hafi verið með alvarlega áverka, en lögregla vill ekki gefa upp hvar á líkamanum þá sé að finna.

„Frásögn foreldranna af því hvernig barnið hafði slasast og áverkar barnsins fór ekki saman. Tilkynnt var um málið til barnaverndaryfirvalda og lögreglu og voru foreldrarnir handteknir,“ segir Sturla Henriksbø, lögreglumaður hjá Óslóarlögreglunni í samtali við VG.

Foreldrarnir hafa báðir verið úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald. „Þetta er alvarlegt mál þar sem allt bendir til að búið sé að beita varnarlausu ungabarni grófu ofbeldi. Mikilvægt er að upplýsa slík mál og því er þessi rannsókn í forgangi,“ segir Henriksbø.

Lögmenn móðurinnar, 24 ára, og föðurins, 30 ára, segja skjólstæðinga sína neita sök í málinu. Faðirinn er ekki skráður til heimilis á sama stað og móðirin og barnið.

Í frétt NRK kemur fram að foreldrarnir eigi ekki önnur börn og hafi ekki komið við sögu lögreglu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×