Skoðun

Launahækkanir og þingmenn

Hákon Þór Sindrason skrifar
Af gefnu tilefni verða hér taldar upp og fjallað um ýmsar launahækkanir á árinu 2015 einkum til hærri tekjuhópa sem margar hverjar eru greiddar af skattgreiðendum. Þær verða að teljast afar slæmt fordæmi og innlegg vegna hugsanlegrar endurskoðun kjarasamninga í febrúar. Einnig það sem höfundur vill kalla ósamræmi í málflutningi þingmanna.

1. Tímagjald lögskipaðra verjenda hjá ríkinu hækkaði um 65 prósent eða úr krónum 10.000 á tímann í kr. 16.500. Góður spónn þar í askinn fyrir Svein A. Sveinsson, Vilhjálm Vilhjálmsson og fleiri ágæta lögmenn. Vissulega hafa þessi tímalaun ekki hækkað í fjölda ára. En hækkun þessi verður að teljast langt yfir öll velsæmismörk.

2. Laun dómara hækkuðu frá áramótum um á bilinu 32 til 48 prósent samkvæmt ákvörðun Kjararáðs. Dómarar þurfa vissulega að vera á góðum launum en fyrr má nú rota en dauðrota.

3. Laun hjúkrunafræðinga hækkuðu um 7,7 prósent á síðasta ári.

4. Stjórn einkahlutafélagsins VÍS hækkaði laun sín um 75 prósent. Laun stjórnarmanna sem öll eru í öðrum störfum, eru nú 350 þúsund á mánuði, en stjórnarformaðurinn fær 600 þúsund. Vís-iðgjöld hækka um 8 prósent á þessu ári vegna slæmrar afkomu eins og Vís tilkynnir - væntanlega til að fjármagna þessa hækkun og fleira. Undirritaður bendir á að auðsótt er í dag að róa á önnur tryggingamið.

5. Lögreglumenn fengu 7,7 prósent hækkun launa sinna.

6. Laun viðskiptafræðinga hjá ríkisstofnunum hækkuðu um 7,25 prósent.

7. Laun alþingismanna, ráðherra o.fl. voru hækkuð um 9,3 prósent og afturvirkt frá 1.mars. Þannig fá ráðherrar eingreiðslu uppá um eða yfir 1 milljón króna. Þar með er ekki sagt að laun þessarar stéttar séu sérlega há, þó segja megi það miðað við a) hæfi sumra sem þar sitja og b) etv. framlagið sem kemur þaðan.

Hér verður lítillega staldrað við lið 1,2 og 7, enda sér greinarhöfundur ekki eftir hækkun til hjúkrunarfræðinga og lögreglumanna. Það kemur ekki á óvart að þrír af fimm sem sitja í Kjararáði eru lögmenn m.v. þessa hækkun sem þeir veita lögmönnum og fjórir af fimm eru karlmenn, sem er stundum ávísun á ákveðna græðgi. Sjá nánar um nefndarmenn neðst í greininni. Hæstvirtur fjármálaráðherra Bjarni Ben. og fleiri alþingismenn höfðu ekkert útá 9,3 prósent hækkun að setja fyrir sig og fleiri embættismenn. Hækkun fyrir lægri tekjuhópa fyrr á árinu var talsvert undir þeirri tölu en venjulegir launamenn svo sem láglauna og meðaltekjuhópar hækkuðu um á bilinu 3,2 prósent til 7,3 prósent. Þá var mikil umræða og varrúðarorð meðal annars frá forsætisráðherra og fjármálaráðherra, (sem hefur þó í heildina að mínu mati staðið sig ágætlega), og talað um ógnun við stöðugleikann. Slíkt er vissulega laukrétt hagfræðilega séð þegar ekki er um að ræða nauðsynlega framleiðniaukningu á sama tíma, sem stórlega vantar á Íslandi. En hvar er ógnin og varrúðarorðin þegar um ræðir alþingismenn, embættismenn, lögmenn o.fl.?. Hér er um að ræða hækkun uppá fyrir þá uppá um eða yfir 70-100 þús kr. á mánuði en sú upphæð nemur rúmlega fjórðungi af dagvinnulaunum láglaunamanns. Nú berast einnig fréttir af því að nokkrir þingmenn séu í fullu námi með þingstörfum, skildu þeir vera á fullum launum á meðan?

Svipað viðkvæði var hjá fjármálaráðherra vegna hugmynda um að lækka tryggingargjald fyrirtækja, sem nemur um 7 prósent af launagreiðslum fyrirtækis höfundar og annarra. Því er ætlað að greiða atvinnuleysisbætur í síminnkandi atvinnuleysi. Á sama tíma er og stefnir í mikinn innflutning á vinnuafli, einkum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Undirritaður, spáir því reyndar að tryggingargjald verði lækkað á árinu. Ég tel ástæðu til að endurskoða þessar hækkanir til forréttindastétta sem fara langt yfir hækkanir almennra launþega og draga ýmsar til baka svo sem hækkun til einstakra dómara uppá hartnær 500 þúsund kr. á mánuði. Athyglisvert var að sjá að jafnaðarmenn á þingi og fleiri hreyfðu ekki andmælum við eigin hækkunum og greiðslum en skattgreiðendur þurfa að greiða hverjum ráðherra afturvirkt yfir 1 milljón. Slíkt er bæði þenslu og verðbólguhvetjandi og afar slæmt fordæmi. Ráðamenn væru meiri menn fyrir vikið ef þeir afþökkuðu þessa sporslu. Jafnaðarmenn og fleiri voru snöggir í pontu og fjölmiðla þegar í ljós kom að markhópurinn aldraðir og öryrkjar fengu ekki afturvirkar greiðslur. Þeir og aðrir þingmenn mættu sýna það fordæmi að afþakka sínar til að fjármagna hugsanlegar greiðslur til þessa hóps. Það er ástæða til að mótmæla þessum hækkunum af meiri krafti en gert hefur verið. Mikill hallarekstur jafnaðarmanna og Pírata hjá borginni eru að sama skapi afar slæmar fréttir fyrir skattgreiðendur, svo hér sé höggvið á báða bóga.

Höfundur, er rekstrarhagfræðingur og framkvæmdastjóri NETIÐ markaðs- og rekstrarráðgjöf og hægri jafnaðarmaður.



Viðauki – Kjararáð frá júlí 2014: Nöfn og menntun kjararáðsmanna. 


• Jónas Þór Guðmundsson, formaður, kosinn af Alþingi – hæstaréttarlögmaður


• Óskar Bergsson, varaformaður, kosinn af Alþingi – framsóknarmaður og fasteignasali


• Svanhildur Kaaber, kosin af Alþingi – kennari (uppruni úr Alþýðubandalaginu)


• Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, skipaður af Hæstarétti – hæstaréttarlögmaður, (faðir Vilhjálms jr. lögmanns sem er oftast nefndur Villi Vill)


• Hulda Árnadóttir, skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra – lögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×