Skoðun

Bankarnir og samfélagið

Bjarnveig Eiríksdóttir skrifar
Bankasýsla ríkisins lagði fram í síðustu viku stöðuskýrslu varðandi fyrirhugaða sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum hf. í samræmi við heimild fjárlaga ársins 2016. Fyrirhuguð sala hefur vakið vangaveltur um skipulag og hlutverk bankans, hvort ríkið eigi áfram meirihluta í Landsbankanum og hann muni jafnvel starfa sem samfélagsbanki.

Óljóst er hvað átt er við með samfélagsbanka, annað en að slíkur banki starfi samkvæmt öðrum lögmálum en almennt tíðkist í bankastarfsemi, jafnvel að bankinn verði ekki rekinn með arðsemismarkmið að leiðarljósi heldur reyni að ýta undir samkeppni á bankamarkaði með lægri þjónustugjöldum og útlánsvöxtum.

Ljóst er að reglur um ríkisaðstoð innan EES setja hugmyndum um lægri arðsemiskröfur af hálfu ríkis­aðila skorður. Sem eigandi banka er starfar á samkeppnismarkaði ber ríkinu að haga sér sem hver annar markaðsfjárfestir. Í þessu felst að ríkið þarf að áskilja sér viðunandi endurgjald af starfseminni. Að öðrum kosti er viðbúið að litið yrði svo á að um ríkisaðstoð til bankans væri að ræða. Vissulega veita EES-reglur ákveðið svigrúm fyrir ríkisaðila að styrkja fjármálastarfsemi sem sinnir almannaþjónustu eins og stuðningur við starfsemi Íbúðalánasjóðs sýnir. Í fljótu bragði verður þó ekki séð að almenn viðskiptabankaþjónusta geti fallið undir almannaþjónustuhugtakið.

Það getur ekki verið neitt lögmál að ríkisaðstoð þurfi til að reka samfélagsbanka. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá 2013, Fjármálaþjónusta á krossgötum, segir að aukinn rekstrarkostnaður bankanna hafi leitt til þess að samkeppnisaðhaldi í bankaþjónustu sé áfátt en samkeppni hvetur fyrirtæki til hagræðingar. Vera má að frumkvæði ríkisins þurfi til að efla samkeppni ef viðskiptabankarnir þrír eru enn of værukærir.

Í Svíþjóð á ríkið bankann SBAB sem hefur það hlutverk að efla samkeppni á fjármálamarkaði. Bankinn býður húsnæðislán og tekur við innlánum. Yfirbygging er lítil og áhersla er lögð á netvæðingu þjónustu. Þá eru mörg dæmi um samfélagsbanka í eigu einkaaðila sem gengið hafa vel, t.d. samvinnusparisjóðurinn Merkur Andelskasse í Danmörku sem hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkrum árum. Sjóðurinn sinnir hefðbundinni bankaþjónustu með áherslu á sjálfbærni í þjóðfélaginu. Kannski er kominn tími til að endur­vekja sparisjóðina með nýjum áherslum?




Skoðun

Sjá meira


×