Skoðun

Réttindi fullkomna fólksins

Bergur Þorri Benjamínsson skrifar
Nýlega hélt Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, því fram að það sé ódýrara að vera öryrki en heilbrigður. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. Stundum held ég að margir Íslendingar trúi því að fatlað fólk fari ekki út úr húsi. Það er mikill misskilningur. Fatlað fólk heimsækir fjölskyldu sína og vini, margir vinna einhverja vinnu (hlutastörf og sumir jafnvel fulla vinnu), eignast börn (já, fatlaðir hafa líka kynhvöt), kaupir lyf, föt, hjálpartæki, fer í sjúkraþjálfun, fer í sund, nýtur útivistar (og þarf þá oft sérhannaðan búnað til þess sem er ekki ódýr), fer t.d. á skíði með ýmsum skemmtilegum útbúnaði, og svo mætti lengi telja. Því fatlað fólk er líka fólk!

Fólk með fötlun á sér drauma. Það vill lifa innihaldsríku lífi, rétt eins og allir aðrir. Fólk með fötlun hefur líka metnað. Þau vilja búa vel að börnum sínum. Þau langar til að ferðast (þó að hér á Íslandi í dreifbýlinu séu stundum ekki einu sinni til ökutæki til að koma þeim á milli húsa). Fólk með fötlun langar ekki að lepja dauðann úr skel! Það langar ekki að hanga heima hjá sér og éta hafragraut. Hvenær ætlar fólk að skilja að fólk með fötlun er manneskjur? Manneskjur með sömu drauma, vonir og væntingar og allir aðrir. Manneskjur sem borga skatt! Manneskjur sem eiga að hafa sama rétt og annað fólk!

Mannréttindi heita nákvæmlega það: MANNréttindi. Ekki réttindi heilbrigða fólksins, réttindi fullkomna fólksins, réttindi fallega fólksins, réttindi hvíta fólksins, réttindi hávaxna fólksins?… heldur einfaldlega MANNRÉTTINDI!

Eiga sama rétt og aðrir

Manneskjur með fötlun eiga sama rétt og aðrar manneskjur. Þær eiga rétt á að geta búið sér og sínum mannsæmandi líf. Þær eiga að geta komist um í samfélaginu eins og allir aðrir. Heimsótt fjölskyldu og vini, farið út í búð, farið í sund, rölt/rúllað um verslunargötur sinnar heimabyggðar. Þetta er bara spurning um gæði á hönnun. Þeir sem geta ekki hannað eftir algildri hönnun eru einfaldlega ekki nógu góðir hönnuðir!

Fólk með fötlun vill geta notið sömu þjónustu og aðrir, enda hefur það, líkt og allir aðrir, tekið þátt í að greiða fyrir þá þjónustu með sköttum sínum og útsvari. Fólk með fötlun vill geta búið í húsnæði sem hentar. Fyrir suma fatlaða er það stúdíóíbúð en fyrir aðra er það kannski íbúð eða hús með 5 svefnherbergjum, einu herbergi fyrir hvert barn ásamt hjónaherbergi.

Af hverju virðast flestar sérútbúnar íbúðir fyrir fatlaða bara vera með tveimur svefnherbergjum? Halda kannski sumir að fatlaðir búi yfirleitt með umsjónarmanni eða eignist bara eitt barn?

Eru fordómar á Íslandi gagnvart fötlun? Samrýmist fötlun ekki hugmyndum fólks um Íslendinga? Best í heimi, sterkust, fallegust, valkyrjur, víkingar? Íslendingar með fötlun eru líka Íslendingar og vilja vera partur af íslensku samfélagi. Þeir vilja ekki lifa í aðskildu samfélagi! Þeir eru Íslendingar sem vilja ferðast með almennum aðgengilegum samgöngum, en ekki bara sérferðaþjónustukerfi – ferðaþjónustu fatlaðra. Þau vilja geta farið út að borða. Vilja búa meðal fólksins í landinu en ekki vera hrúgað inn á sambýli, íbúakjarna eða jafnvel stofnanir til að lepja dauðann úr skel. Vilja stjórna sínu lífi, ráða sína aðstoðarmenn og ráða því hverjir hjálpa þeim í og úr fötunum.

Þau eru Íslendingar sem vilja komast í sund, geta notið náttúrunnar, farið á bókasöfn, geta menntað sig, fengið vinnu með möguleikanum á að vinna sig upp í starfi ef vel gengur.

Fatlaðir hafa drauma! Martin Luther King átti sér drauma um að fólk, hvort sem það er svart eða hvítt, geti átt sömu tækifæri og sömu réttindi. Fólk með fötlun á sér þann draum að fatlaðir og hraustir geti átt sömu réttindi og tækifæri og þú.

Íslenska þjóðin á langt í land þegar kemur að mannréttindum fatlaðs fólks. Fyrsta skrefið væri að fullgilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og jafnframt að hækka lífeyri svo hægt sé að lifa á honum, því eins góður og sáttmálinn er þá er ekki hægt að borða hann.

Er ekki kominn tími til?




Skoðun

Sjá meira


×