Fótbolti

Celtic vill fá Kolbein

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn fagnar marki sínu með liðsfélögunum í gær.
Kolbeinn fagnar marki sínu með liðsfélögunum í gær. Vísir/AFP
Skoska blaðið Daily Record slær því upp í dag að Celtic sé á höttunum eftir landsliðsframherjanum Kolbeini Sigþórssyni sem spilar með Nantes í Frakklandi.

Kolbeinn kom til Frakklands í sumar en átti erfitt uppdráttar fyrir áramót. Hann var gagnrýndur af þjálfara sínum fyrir að vera ekki í nógu góðu formi en forseti félagsins, sem átti stærstan hlut í því að fá Kolbein frá Ajax, sagði að Kolbeinn þyrfti að fá meiri tíma til að aðlagast og að hann fengi allt tímabilið til að sanna sig.

Sjá einnig: Þjálfari Nantes um Kolbein: Hann er of þungur

Kolbeinn þakkaði fyrir sig með því að skora sigurmark sinna manna í Nantes í 2-1 sigri á St. Etienne eftir að hafa komið inn á sem varmaður.

Sjá einnig: Kolbeinn kom inn á sem varamaður og skoraði sigurmarkið

„Gagnrýnin særði mig en ég kem sterkari til baka. Þetta er nýtt ár og ný byrjun,“ sagði Kolbeinn við fjölmiðla eftir leikinn í gær.

Blaðið segir að Kolbeinn hafi fyrst vakið athygli forráðamanna Celtic árið 2013 en Neil Lennon var þá stjóri liðsins.

Nantes greiddi þrjár milljónir evra fyrir Kolbein í sumar en fullyrt er að félagið sé reiðubúið að láta hann frá sér fyrir sömu upphæð.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslenskur framherji er orðaður við Celtic en skoskir fjölmiðlar hafa reglulega birt fréttir um það að Alfreð Finnbogason sé á óskalista félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×