Erlent

Ráðist á Lækna án landamæra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Merki Lækna án Landamæra
Merki Lækna án Landamæra
Þrír létu lífið í sprengjuárás á miðstöð Lækna án landamæra í Jemen. Þetta er haft eftir talsmanni samtakanna sem segir að tíu aðrir hafi særst í árásinni. Miðstöðin var staðsett í Razeh-hverfinu í Saada-umdæmi.

Talsmaðurinn, Malak Saher, segir í samtali við Sky-fréttastofuna að hún gæti ekki staðfest hvort um loftárás á vegum Sádí-Araba væri að ræða eða sprengjuflaug sem skotið var af jörðu niðri.

Saada er í miðju yfirráðasvæðis Húta sem barist hafa gegn yfirvöldum í Jemen allt frá því í mars á liðnu ári. Sádí-Arabar hafa farið fyrir sameinuðu herliði sem berst gegn Hútum í landinu.

Sádar gerðu loftárás á aðra miðstöð Lækna án landamæra í október á síðasta ári. Tveir særðust og byggingin hrundi. Þá er þeim einnig gefið að sök að hafa ráðist á læknamiðstöð samtakanna í Taez í suðurhluta landsins í desember. Í þeirri árás létust 9 manns.

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna vinnur nú að því að fá stríðandi fylkingar að samningaborðinu í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×