Erlent

Bjargað úr námu eftir 36 daga

Samúel Karl Ólason skrifar
Einn mannanna sem var bjargað í dag.
Einn mannanna sem var bjargað í dag. Vísir/AFP
Fjórum mönnum var í dag bjargað úr námu í Kína, þar sem þeir höfðu setið fastir í 36 daga. Alls festust 29 í námunni í Shandong héraði þann 25. desember. Fimmtán hefur verið bjargað, einn er látinn og þrettán er enn saknað.

Fjölmiðlar í Kína birtu í dag myndbönd af björguninni og fagnaðarlátum sem brutust út þegar mennirnir voru hífðir upp á yfirborðið. Samkvæmt frétt BBC voru mennirnir fjórir á rúmlega 200 metra dýpi.

Rúmlega 400 björgunarmenn hafa unnið að því að grafa niður á mennina. Mat og vatni var komið til þeirra í gegnum þrönga borholu. Áfram verður leitað að þeim sem enn eru týndir.

Þegar náman hrundi fannst það á jarðskjálftamælum í Kína. Eftir hrunið voru embættismenn á svæðinu reknir og forsvarsmenn fyrirtækisins sem eiga námuna hafa verið handteknir. Yfirmaður fyrirtækisins stökk ofan í brunn skömmu eftir slysið þar sem hann lést.

Lengsti tíminn sem menn hafa setið fastir í námu, eru 69 dagar í námu í Síle árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×