Skoðun

Umgengnistálmanir milli landa

Gunnar Kristinn Þórðarson skrifar
Undanfarin ár hefur það færst í vöxt að barnafjölskyldur flytja til Norðulanda í leit að betri lífskjörum. Er óhætt að fullyrða að slíkir flutningar hafi mikil áhrif á skilnaðarbörn þegar annað foreldrið flyst til útlanda en hitt er eftir heima. Því miður hefur brunnið við að lögheimlisforeldrar (hér kallaðir barnsmæður) sem flutt hafa erlendis, banna börnum sínum að umgangast feður sína búsetta á Íslandi.

Alla jafna er það í hlutverki sýslumanns að samþykkja umgengnissamninga eða úrskurða umgengni með skilnaðarbörnum, og geta umgengnisforeldrar óskað eftir aðstoð sýslumannsembætta ef umgengni er tálmuð. Úrræði við tálmunum eru fá og léleg, og má segja ef barnsmóðir er einbeitt við að tálma umgengni, geti hún komist upp með það, ef hún sættir sig við dagsektir annað slagið. Þótt erfitt og seinlegt sé að beita dagsektarúrræðum, geta barnsmæður engu að síður leikið á kerfið þannig að þær þurfi aldrei að greiða dagsektir þótt tálmanir haldi áfram. Þó er þetta eina úrræðið sem í boði er til að stemma stigu við umgengnistálmunum fyrir utan íhlutun valdstjórnarinnar á grundvelli innsetningarákvæðis barnalaga, sem nánast aldrei er notað.

Þegar tálmanir eiga sér stað milli landa, þ.e. þegar umgengnisforeldrið er búsett á Íslandi en barn og barnsmóðir erlendis, geta umgengnisforeldrar ekki reitt sig á aðstoð sýslumanns, þar sem ákvæði barnalaga kveður svo á um að slík umgengnismál falli utan lögsögu sýslumanna. Hafa umgengnisforeldrar þá verið ráðalausir og jafnvel ferðast erlendis til að knýja fram umgengni, og þeir sem efni hafa keypt rándýra lögmannsþjónustu fyrir margar milljónir til að fá að sjá börn sín.

Fjölmargir feður hafa komið að máli við Samtök umgengisforeldra og lýst algjöru úrræðaleysi innan stjórnsýslunar þegar kemur að umgengnistálmunum milli landa. Þegar þeir leita aðstoðar sýslumanna er þeim sagt að málið falli utan lögsögu þeirra og er feðrum vísað út í kuldann. Vegna þessa funduðu samtökin með fulltrúum utanríkis- og innanríkisráðuneytis vegna málsins, og var sá fundur afskaplega gagnlegur. Kemur í ljós að í gildi er alþjóðlegur samningur um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna milli landa. Kemur þar skýrt fram að íslensk stjórnvöld eru skuldbundin að tryggja umgengni skilnaðarbarna ef börnin eru búsett í aðildarríkjum samningsins. Eru Norðurlöndin á meðal samningsríkja.

Ljóst er að misbrestur er á að stjórnvöld, -þá einkum sýslumannsembættin, gæti að leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, svo sem kveðið er á um í stjórnsýslulögum, þegar umgengnisforeldrar leita á náðir embættana þegar þeim er tálmuð umgengni vegna barns sem búsett er erlendis. Mikilvægt er að árétta að innanríkisráðuneytið tekur við slíkum málum en ekki sýslumannsembættin, og ber ráðuneytinu að tryggja að þarlend stjórnvöld beiti þeim úrræðum sem þar eru lögfest til að koma á umgengni. Eru umgengnisforeldrum velkomið að setja sig í samband við samtökin til að fá frekari upplýsingar um úrræði til að knýja fram umgengni.

Vilja Samtök umgengnisforeldra jafnframt kalla eftir því að Alþingi breyti barnalögum og barnaverndarlögum á þann hátt, að ástæðulausar og ólögmætar umgengnistálmanir verði skilgreindar sem ofbeldi gagnvart börnum í lögum, þannig að mál verði að barnaverndarmáli um leið og ásökun um tálmun kemur á borð sýslumanns. Í því samhengi virðist þurfa að benda á að feður sem ekki fá að sjá eða umgangast börn sín eru jafnan þjáðir, brotnir og jafnvel veikir vegna þess ofbeldis sem umgengnistálmanir eru.

Ættu allir að geta sett sig í þeirra spor.

Gunnar Kristinn Þórðarson,

Stjórnsýslufræðingur og framkvæmdastjóri Samtaka umgengnisforeldra.






Skoðun

Sjá meira


×