Skoðun

Þaggað niður í spillingarumræðu?

Gunnar Helgi Kristinsson skrifar
Í gær birtist í Fréttablaðinu grein eftir Jón Ólafsson heimspeking þar sem hann gerir athugasemdir við rannsóknarniðurstöður mínar og fréttaflutning af þeim. Tilefnið er erindi sem ég flutti hjá Félagi stjórnmálafræðinga síðasta föstudag þar sem ég kynnti gögn sem benda til þess að almenningur ofmeti umfang spillingar á Íslandi. Jón virðist ekki hafa skilið kjarnann í því sem ég hélt fram og því er rétt að árétta það.

Ég benti á að flókið væri að rannsaka spillingu en hæpið væri að draga ályktanir um útbreiðslu spillingar út frá upplifun almennings. Það er vel þekkt niðurstaða í alþjóðlegum rannsóknum að almenningur hefur tilhneigingu til að ofmeta umfang spillingar. Ég benti á tvenns konar gögn sem benda til að sú sé raunin hér á landi. Annars vegar er mikið misræmi á milli reynslu fólks af spillingu og skoðana á því hversu útbreidd hún sé. Fólk hefur almennt litla persónulega reynslu af spillingu á Íslandi en telur samt að hún sé útbreidd. Hins vegar er mikið misræmi á milli þess hvernig sérfræðingar meta útbreiðslu spillingar og almenningur. Sérfræðingar telja mun síður að hún sé útbreidd. Notkun sérfræðingakannana er sennilega algengasta aðferðin við að meta útbreiðslu á spillingu í rannsóknum og þó sú aðferð hafi sínar takmarkanir hefur hún líka vel þekkta kosti.

Mikilvægt að gæta hófs

Ég benti á að mikilvægt væri að fólk gætti hófs í umræðu um spillingu því umræðan sjálf getur haft áhrif á það hvernig fólk bregst við freistingum. Í nýrri rannsóknum á spillingu hefur tveimur ólíkum líkönum verið stillt upp af því hvaða aðstæður leiði til spillingar. Annars vegar er spilling talin geta verið umboðsvandamál þar sem kjörnir fulltrúar eða opinberir starfsmenn bregðast trausti umbjóðenda sinna. Þetta kallar á að við höldum vöku okkar í umræðu um spillingu. Hins vegar er spilling talin geta verið merki um vanda sameiginlegra aðgerða, sem kemur upp þegar hópar eiga erfitt með að vinna í sameiningu að hagsmunum sínum.

Opinber starfsmaður sem telur spillingu af hinu illa gæti samkvæmt þessu freistast til að láta undan freistingum ef hann teldi að flestallir aðrir myndu gera það í svipuðum aðstæðum. Með því að standast freistingar væri hann að baka sér kostnað sem aðrir yrðu ekki fyrir. Vandi þess að vinna gegn spillingu samkvæmt síðara sjónarhorninu getur falist í því að fólk í opinberum stöðum láti frekar undan freistingum ef það telur að spilling sé útbreidd. Bæði sjónarhornin hafa nokkuð til síns máls en það er óneitanlega áhugavert að skoða upplýsingar um ofmat á spillingu á Íslandi í ljósi þess síðara.

Í lok greinar Jóns kemur ádrepa á fjölmiðlafólk sem hann skammar fyrir að flytja fréttir af rannsóknum og þeim álitaefnum sem þær vekja. Það er erfitt að vera ósammála því að fjölmiðlar eigi að vera gagnrýnir í umfjöllun um viðfangsefni sín. Það er hins vegar erfiðara að samþykkja að niðurstöður rannsókna geti ekki verið fréttir.








Skoðun

Sjá meira


×