Klopp sá því ekki Emre Can skjóta í stöngina, þá Christian Benteke, Roberto Firmino, James Milner, Lucas og Joe Allen skora úr sínum spyrnum eða Belgann Simon Mignolet verja víti frá þeim Peter Crouch og Marc Muniesa.
Sjá einnig:Jürgen Klopp: Við vinnum á Wembley
„Ég sá ekki eitt víti. Ég var fyrir aftan vegg af mínum leikmönnum og fylgist með þaðan. Ég mun horfa á þetta seinna í sjónvarpinu en það var gaman að fylgjast með stuðningsfólkinu í staðinn,“ sagði Jürgen Klopp við BBC eftir leikinn.
Það sást líka á því að sjónvarpsvélunum á vellinum gekk ekki alltof vel að finna þýska stjórann á meðan vítakeppninni stóð. Hann er oftast miklu meira áberandi á hliðarlínunni en hann var á meðan vítakeppninni stóð í gærkvöldi.
Klopp sagði frá því í viðtali við heimasíðu Liverpool af hverju hann horfði ekki á vítakeppnina.
„Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Vanalega horfi ég á vítakeppnir en ef ég hefði stillt mér upp fyrir framan stúkuna þá hefðu áhorfendurnir í fyrstu röð ekki séð. Ég get ekki verið á hnjánum svona lengi. Ég sleit krossband fyrir tuttugu árum og er ekki enn orðinn hundrað prósent góður,“ sagði Klopp og bætti við:
„Þess vegna sat ég á stól og gat ekki séð neitt. Mér leið samt vel þarna og það var gott að sjá bara fólkið. Við unnum á endanum án þess að ég horfði á og það var fyrir öllu,“ sagði Klopp.
Liverpool er komið í úrslitaleik enska deildabikarsins sem fer fram á Wembley 28. febrúar næstkomandi.
Vítaspyrnukeppnina má sjá að neðan.
Everton vann 2-1 sigur á Manchester City í fyrri leiknum og kemur því eins marks forskot inn í leikinn eins og Liverpool í gær. Manchester City skoraði aftur á móti mikilvægt útivallarmark í fyrri leiknum á Goodison Park.
BBC segir frá því að Liverpool hafi nú fagnað sigri í 11 af síðustu 13 vítakeppnum sínum í öllum keppnum.

