Erlent

Keppa í drónaflugi: Á fleygiferð um leikvang Miami Dolphins

Samúel Karl Ólason skrifar
Stofnuð var ný íþróttadeild í fyrra sem gengur út að fljúga sérsmíðuðum drónum á fleygiferð um þrönga ganga og skarpar beygjur. Drone Racing League eða DRL er enn ekki mikið á milli tannanna á fólki, en hefur vakið þó nokkra athygli á Youtube undanfarið.

Markmið DRL er að koma á laggirnar stórri íþrótt sem líkja megi við Formúlu 1. Þegar hafa margir fjárfest í deildinni og þeirra á meðal eru Stephen Ross, eigandi Miami Dolphins, og Matt Bellamy, söngvari hljómsveitarinnar Muse.

Flugmennirnir koma sér þægilega fyrir og setja upp sérstök gleraugu sem sýna beint frá myndavélum á drónunum. Enn sem komið er eru gæði útsendinganna ekki mjög góð. Séu gæðin bætt á útsendingin það til að hökta eða „lagga“ og við það verður flugmönnunum bumbult.

Þó eru aðrar HD myndavélar á drónunum sem notaðar eru til að gera myndbönd og þætti um keppnirnar eftir á. 

Nú þegar er búið að halda tvö mót og stendur til að halda fjögur í viðbót á þessu ári. Mótin hafa verið haldin í yfirgefnu atvinnuhúsnæði í New York sem og í leikvangi Miami Dolphins.

Út af vandræðunum sem nefnd voru hér að ofan, er ekki hægt að sýna frá drónunum í beinni útsendingu, ennþá. Hins vegar vonast forsvarsmenn að myndbönd frá keppnunum nái miklum vinsældum.

Hægt er að fylgjast með keppninni sem áhorfandi. Neon ljósum er komið fyrir á brautunum, sem og drónunum og reyk er dælt inn á keppnisbrautina. Reykurinn hjálpar til við að fylgjast með drónunum þegar þeir eru á hvað mestum hraða.

Enn sem komið eru einungis flugmenn sem hafa vakið athygli í öðrum keppnum að keppa í DRL. Seinna á þessu ári mun deildin þó leita að fleiri flugmönnum til að taka þátt.

Hér að neðan má sjá nokkur myndbönd frá DRL, en fleiri má sjá á Youtubesíðu þeirra. 

Hvað er DRL Gates of Hell brautin Brotlendingar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×