Erlent

Jafnaðarmenn ekki lengur stærstir í Svíþjóð

Atli ísleifsson skrifar
Stefan Löfven hefur gegnt embætti forsætisráðherra Svíþjóðar frá haustinu 2014.
Stefan Löfven hefur gegnt embætti forsætisráðherra Svíþjóðar frá haustinu 2014. Vísir/AFP
Sænski hægriflokkurinn Moderaterna mælist nú stærri en Jafnaðarmannaflokkurinn í nýrri könnun Dagens Nyheter og Ipsos. Þetta er í fyrsta sinn í fjögur ár sem Jafnaðarmenn mælast ekki stærstir.

Moderaterna mælist nú með 25,8 prósent fylgi og Jafnaðarmannaflokkurinn 24,7 prósent.

Könnunin bendir einnig til að Moderaterna hafi stöðvað siglingu Svíþjóðardemókrata sem mælast nú með 16,7 prósent fylgi, 2,2 prósentustigum minna en í síðustu könnun.

Könnunin þykir styrkja stöðu Anna Kinberg Batra, formanns Moderaterna, sem getur nú sýnt fram á að stuðningur við flokkinn hafi aukist. Hún tók við formannsembættinu í flokknum fyrir um ári af Fredrik Reinfeldt, fyrrverandi forsætisráðherra.

Í frétt DN kemur fram að Jafnaðarmenn hafi misst fylgi á meðal yngri kjósenda og kjósenda í suðurhluta landsins. Þannig segjast 13 prósent kjósenda undir þrítugu nú styðja flokkinn, borið saman við 34 prósent fólks sextíu ára og eldri.

Græningjar, Vinstriflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Miðflokkurinn njóta allir stuðnings 6,5 til 7,2 prósent kjósenda, en Kristilegir demókratar 2,7 prósent.

Jafnaðarmenn og Græningjar mynda nú minnihlutastjórn í landinu.


Tengdar fréttir

Minnsta fylgi Jafnaðarmanna frá upphafi

Sænski Jafnaðarmannaflokkurinn mælist með 23,2 prósenta fylgi í nýrri skoðanakönnun. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með frá upphafi mælinga árið 1967.

Wallström sökuð um spillingu

Utanríkisráðherra Svíþjóðar hefur verið sökuð um spillingu eftir að hún skrifaði undir húsaleigusamning við verkalýðsfélagið Kommunal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×