Ingvar Jónsson, landsliðsmarkvörður í fótbolta, er búinn að ganga frá þriggja ára samningi við norska félagið Sandefjord, en þetta kemur fram á heimasíðu liðsins.
Ingvar kemur til Sandefjord frá úrvalsdeildarliðinu Start, en hann var fenginn þangað eftir að slá í gegn í Pepsi-deildinni 2014 þar sem hann vann Íslandsmeistaratitilinn með Stjörnunni og var kjörinn leikmaður ársins.
Markvörðurinn var lánaður frá Start niður í B-deildina til Sandnes Ulf á síðustu leiktíð þar sem hann tók við af öðrum íslenskum landsliðsmarkverði, Hannesi Þór Halldórssyni. Njarðvíkingurinn spilaði fimmtán leiki fyrir Sandnes Ulf og hélt fjórum sinnum hreinu.
„Við erum að fá metnaðarfullan markvörð sem vill vera hluti af íslenska landsliðinu. Hann er heilsteyptur og góður markvörður,“ segir Lars Bohinen, þjálfari Sandefjord, um Ingvar.
Sandefjord féll úr norsku úrvalsdeildinni í haust eftir eins árs dvöl á meðal þeirra bestu.
Ingvar Jónsson á fjóra landsleiki að baki fyrir íslenska landsliðið. Hann spilaði sinn fyrsta á móti Belgíu í nóvember 2014, en svo byrjaði hann báða leiki liðsins í Sameinuðu arabísku furstadæmunum fyrr í þessum mánuði.
Fótbolti