Enski boltinn

Jürgen Klopp: Við vinnum á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool fagna sigrinum.
Leikmenn Liverpool fagna sigrinum. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var kátur í gærkvöldi eftir að lið hans komst í úrslitaleik enska deildabikarsins og var tilbúinn að lofa því að Liverpool tæki bikarinn á Wembley.

Liverpool komst í úrslitaleikinn eftir sigur í vítakeppni á móti Stoke á Anfield í gær en belgíski markvörðurinn Simon Mignolet varði tvö víti frá leikmönnum Stoke í vítakeppninni og var hetja liðsins.

Þetta verður fyrsti úrslitaleikur Jürgen Klopp með Liverpool en ekki fyrsti úrslitaleikur hans á Wembley. Hann fór með Borussia Dortmund í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2013 þar sem liðið tapaði fyrir Bayern München.

Sjá einnig:Liverpool í úrslitaleikinn á Wembley | Sjáðu vítaspyrnukeppnina

Liverpool mætir annaðhvort Everton eða Manchester City í úrslitaleiknum á Wembley en seinni undanúrslitaleikur þeirra fer fram í kvöld. Úrslitaleikurinn fer fram 28. febrúar næstkomandi og Jürgen Klopp er sigurviss.

„Manchester City eða Everton, það skiptir mig engu máli, því við munum vinna bikarinn," sagði Jürgen Klopp í viðtali við Sky Sports. „Liverpool er yndisleg borg og hún á skilið að vinna," sagði Klopp kátur.

„Ég hef verið í Liverpool í fjóra mánuði og get bara lofað borgina. Það er frábært að búa hérna og æðislegt að hitta fólkið, jafnvel þótt að maður hitti á Everton-stuðningsmenn," sagði Klopp kíminn.

„Það yrði frábær úrslitaleikur ef Liverpool-liðin myndu mætast en þetta verður hvort sem er mjög mikilvægur úrslitaleikur fyrir LFC," sagði Klopp. Liverpool tapaði leiknum 1-0 en hafði unnið fyrri leikinn með sama mun á heimavelli Stoke.

„Þetta var góður leikur á móti mjög erfiðum andstæðingi sem skipti um leikskipulag og fór að spila gamla Stoke-fótboltann, frá [Jack] Butland til [Peter] Crouch . Við vorum í smá vandræðum en þeir fengu þó ekki mörg færi," sagði Klopp.

„Við hefðum átt að spila meiri fótbolta í fyrri hálfleiknum en svo ná þeir inn markinu. Ég held að það sjá það allir að það var rangstöðumark. Við vorum óheppnir þar en heppnin var með okkur í vítakeppninni," sagði Klopp.

„Mínir menn áttu þetta skilið og Liverpool átti þetta skilið. Stuðningsmennirnir áttu þetta skilið. Þetta var frábær stund fyrir okkar lið. Við þurftum að leggja mikið á okkur enda er aldrei auðvelt að komast í úrslitaleik. Þetta var erfiður leikur en sanngjörn úrslit," sagði Klopp.

Jürgen Klopp þakkar Mark Hughes fyrir leikinn.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Klopp: Gagnrýnið mig, ekki leikmennina

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að hann taki alla ábyrgð á 2-2 jafntefli liðsins gegn Exeter í enska bikarnum í gærkvöldi. Brad Smith bjargaði Liverpool fyrir horn, en liðin mætast á nýjan leik á Anfield.

Klopp: Áttum þetta skilið

Jürgen Klopp hæstánægður með að vera kominn með Liverpool í sinn fyrsta úrslitaleik.

Klopp: Ferguson er John Lennon fótboltans

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, sé í raun John Lennon fótboltans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×