Enski boltinn

Liver­pool í úr­slita­leikinn á Wembl­ey | Sjáðu víta­spyrnu­keppnina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Liverpool er komið áfram í úrslitaleik enska deildabikarsins eftir sigur á Stoke í vítaspyrnukeppni á Anfield í kvöld.

Þetta var síðari leikur liðanna í rimmunni en Marko Arnautovic skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Það reyndist eina markið í venjulegum leiktíma og þar sem fyrri leiknum lauk með 1-0 sigri Liverpool þurfti að framlengja leikinn.

Ekkert mark var skorað í framlengingunni og þurfti því vítaspyrnukeppni til að knýja fram sigur. Simon Mignolet, markvörður Liverpool, varði tvær spyrnur í henni.

Bæði lið klikkuðu í annarri umferð keppninnar - Peter Crouch fyrir Stoke (varið) og Emre Can fyrir Liverpool (í stöng). Eftir það var skorað úr öllum spyrnum þar til að Mignolet varði frá Marc Muniesa í sjöundu spyrnu Stoke.

Walesverjinn Joe Allen fékk svo það hlutverk að tryggja Liverpool sæti í úrslitaleiknum á Wembley-leikvanginum og brást honum ekki bogalistin.

Liverpool mætir svo sigurvegara undanúrslitarimmu Everton og Manchester City í úrslitaleiknum sem fer fram þann 28. febrúar. Everton er með undirtökin í þeirri rimmu eftir 2-1 sigur á heimavelli í fyrri leiknum.

Fyrri hálfleikur í kvöld var afar bragðdaufur þar til að Arnautovic skoraði umdeilt mark þar sem hann var að öllum líkindum rangstæður. En markið stóð engu að síður.

Það var meira fjör eftir það. Roberto Firmino átti skot í stöng snemma í síðari hálfleik og Marco van Ginkel gerði slíkt hið sama fyrir Stoke í fyrri hálfleik framlengingarinnar. En allt kom fyrir ekki.

Hér fyrir ofan má sjá mark Arnautovic í leiknum en upptaka af vítaspyrnukeppninni er efst í fréttinni.

Gangur vítaspyrnukeppninnar:

Liverpool - Stoke 0-1: Jonathan Walters.

Liverpool - Stoke 1-1: Adam Lallana.

Liverpool - Stoke 1-1: Simon Mignolet ver frá Peter Crouch.

Liverpool - Stoke 1-1: Emre Can skýtur í stöng.

Liverpool - Stoke 1-2: Glenn Whelan.

Liverpool - Stoke 2-2: Christian Benteke.

Liverpool - Stoke 2-3: Ibrahim Afellay.

Liverpool - Stoke 3-3: Roberto Firmino.

Liverpool - Stoke 3-4: Xherdan Shaqiri.

Liverpool - Stoke 4-4: James Milner.

Liverpool - Stoke 4-5: Marco van Ginkel.

Liverpool - Stoke 5-5: Lucas Leiva.

Liverpool - Stoke 5-5: Simon Mignloet ver frá Marc Muniesa.

Liverpool - Stoke 6-5: Joe Allen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×