Skoðun

Hver vill 20% verðlækkun?

Lárus Lárusson skrifar
Undir lok árs stóð Samkeppniseftirlitið fyrir opnum fundi með OECD þar sem rætt var um áhrif stjórnvalda á samkeppni. Á fundinum var m.a. fjallað um það hvernig stjórnvöld geta með endurskoðun laga og reglna haft allt að 20% lækkandi áhrif á verð á viðkomandi mörkuðum. Það sem um ræði nánar til tekið er endurskoðun gildandi laga og reglna með það fyrir augum að ryðja úr vegi samkeppnishamlandi ákvæðum eða kerfisbundnum samkeppnishömlum sem geta falist í gildandi reglum eða leitt af þeim. OECD hefur þróað skilvirka aðferðafræði til þess að ná þessum markmiðum og var henni til að mynda beitt á Grikklandi með góðum árangri og skilaði þar ávinningi sem talinn er nema 2,5% af vergri landsframleiðslu Grikklands. Þetta var stór liður í endurreisn landsins. Framangreint hefur augljóslega mikla þýðingu ekki aðeins fyrir neytendur í landinu heldur ekki síður fyrir fyrirtækin í landinu og hagsmuni þeirra af því að geta starfað á markaði þar sem ríkir heilbrigð og virk samkeppni þar sem allir spila eftir sömu leikreglum.

Í kjölfarið af svona opinberun, ef svo má að orði komast, hefði margur haldið að stjórnvöld myndu taka á sig rögg og grípa tækifærið til þess að ná svona miklum ávinningi fyrir samfélagið í heild. Því miður virðist sem stjórnvöld hafi skellt skollaeyrum við, alltént ber lítið á viðbrögðum eða aðgerðum af þeirra hálfu. Í gegnum tíðina hefur hið opinbera oft verið mesti samkeppnislagabrjóturinn jafn einkennilega og það kann að hljóma. 

Skilaboðin fóru sem betur fer ekki fyrir ofan garð og neðan á öllum vígstöðvum. Örfáir forkólfar atvinnulífsins gripu boltann á lofi og hafa tjáð sig um málið í fjölmiðlum. En betur má ef duga skal. Hagsmunirnir sem hér um ræðir eru gríðarmiklir fyrir neytendur og fyrirtæki og ávinningurinn svo mikil að furðu sætir að málið hafi ekki hlotið meiri hljómgrunn. Hvers vegna hefur enginn þingmaður tekið málið upp á sína arma og borið það upp á Alþingi? Eða ráðherra borið það fyrir ríkisstjórn? Aðgerðir sem geta skilað allt að 20% verðlækkun til almennings í landinu á tilteknum mörkuðum ætti að vera ofarlega í forgangsröðinni hjá ríkisstjórninni. Er þá ekki minnst á fleiri jákvæð áhrif sem fylgja í kjölfarið og hafa verið sannreyndar með aðferðafræði OECD. Nú er köllun eftir þeim ráðamanni sem vill annast þessa hagsmuni.

 




Skoðun

Sjá meira


×