Erlent

Styrkir suður-afrískar konur til náms gegn því að þær haldi meydómnum

Bjarki Ármannsson skrifar
Suður-afrískar konur í héraðinu Kwazulu-Natal, þar sem HIV-smitanir eru hvað algengastar í landinu.
Suður-afrískar konur í héraðinu Kwazulu-Natal, þar sem HIV-smitanir eru hvað algengastar í landinu. Vísir/EPA
Borgarstjóri í Suður-Afríku hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun sína að styrkja sextán ungar konur til háskólanáms með því skilyrði að þær haldi meydómi sínum á meðan. Dudu Mazibuko segir í samtali við breska ríkisútvarpið að markmiðið með þessari skilyrtu styrkveitingu sé að sporna gegn alnæmissmitun og óæskilegum þungunum meðal ungra kvenna í héraðinu Kwazulu-Natal.

Mannréttindasamtök hafa fordæmt ákvörðun Mazibuko og sagt hana stríða gegn réttindum og sjálfsvirðingu ungra kvenna. Styrkurinn felur í sér að konurnar þyrftu reglulega að gangast undir einhvers konar próf þar sem sannreynt er að þær hafi ekki stundað kynlíf.

Þá myndu þær þurfa að ganga undir svipað próf sem hluti er af árlegri athöfn Zulu-fólksins í Suður-Afríku áður en þær fengju styrkinn. Þegar Mazibuko var spurt hvort hún gæti hugsað sér að dætur hennar yrðu látnar ganga í gegnum þessa raun, sagðist hún vel geta hugsað sér það og bætti við að barnabarn hennar hygðist taka þátt í athöfninni í ár.

Fleiri eru smitaðir af HIV í Suður-Afríku en í nokkru öðru landi. Um það bil 6,3 milljónir Suður-Afríkubúa, um einn tíundi þjóðarinnar, eru taldir smitaðir af vírusnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×