Enski boltinn

Tölfræði sem styður það að Klopp sé með bestu skiptingarnar í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Lallana átti frábæra innkomu um helgina.
Adam Lallana átti frábæra innkomu um helgina. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, átti enn eina meistaraskiptinguna um helgina þegar hann setti Adam Lallana inn á völlinn fyrir Jordon Ibe.

Adam Lallana kom inná fyrir Jordon Ibe á 63. mínútu leiksins og staðan var 3-2 fyrir Norwich City. Lallana lagði upp jöfnunarmarkið fyrir Roberto Firmino og skoraði síðan sigurmarkið í uppbótartíma.  Liverpool vann leikinn 5-4.

Jürgen Klopp hefur aðeins stýrt Liverpool-liðinu í fimmtán leikjum í ensku úrvalsdeildinni en varamenn hans hafa engu að síður skilað honum samtals tíu mörkum með því annaðhvort að skora (6 mörk) eða leggja upp (4 stoðsendingar).

Það er bara einn knattspyrnustjóri í ensku deildinni á tímabilinu sem hefur tekist jafnvel að skipta mönnum inná völlinn en vefsíðan A different league tók þetta saman .

Varamenn Roberto Martinez, knattspyrnustjóra Everton, hafa einnig skilað honum tíu mörkum með því að skora sjö mörk og gefa þrjár stoðsendingar. Martinez hefur hinsvegar stjórnað liðinu í átta fleiri leikjum en Klopp.

Í þriðja sæti á þessum lista er síðan Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, en varamenn hans hafa búið til átta mörk (4 mörk og 4 stoðsendingar).

Varamenn Louis van Gaal hjá Manchester United og Arsene Wenger hjá Arsenal hafa ekki skilað mjög miklu á leiktíðinni. Van Gaal hefur aðeins fengið þrjú mörk frá varamönnum sínum og Wenger hefur fengið fjögur mörk frá sínum varamönnum.

Quique Flores hjá Watford, Eddie Howe hjá Bournemouth, Alan Pardew hjá Crystal Palace og Steve McLaren hjá Newcastle reka lestina á þessum lista með Louis van Gaal.

Flest mörk búin til hjá varamönnum knattspyrnustjóranna:

10 - Jürgen Klopp, Liverpool (6 mörk og 4 stoðsendingar) - 15 leikir

10 - Roberto Martinez, Everton (7 mörk og 3 stoðsendingar) - 23 leikir

8 - Mauricio Pochettino, Tottenham (4 mörk og 4 stoðsendingar) - 23 leikir

7 - Ronald Koeman, Southampton (4 mörk og 3 stoðsendingar) - 23 leikir

7  Claudio Ranieri, Leicester City (3 mörk og 4 stoðsendingar) - 23 leikir


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×