Erlent

Stór jarðskjálfti skók Spán

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jarðskjálftinn átti upptök sín í Miðjarðarhafi og fannst víða.
Jarðskjálftinn átti upptök sín í Miðjarðarhafi og fannst víða. Mynd/Skjáskot
Stór jarðskjálfti fannst á Spáni í morgun. Hann er sagður hafa verið 6,5 stig en miðja skjálftans er talin hafa verið 162 kílómetrum suðaustan af Malaga í Miðjarðarhafi. Að minnsta kosti fimmtán slösuðust í spænska bænum Melilla og nokkrar skemmdir urðu á húsum í Andalúsíu-héraði.

Jarðskjálftinn fannst víða á Spáni, einkum og sér í lagi í strandbæum Andalúsíu-héraðs á borð við Malaga og Granada sem margir hverjir eru vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Jarðskjálftinn fannst einnig víða í Marokkó.

Jarðfræðistofnun Spánar segir að skjálftinn hafi riðið yfir um klukkan hálf sex í morgun að staðartíma. Alls hafa sjö eftirskjálftar fundist, þeir stærstu voru 4,5 og 4,4 stig.

Talið er að um fimmtán manns hafi slasast í bænum Melilla og nokkrar skemmdir urðu á húsum víðsvegar um Andalúsíu-hérað.

Þetta er annar jarðskjálftinn á nokkrum dögum sem á upptök sín á sama staðnum en á fimmtudaginn mældist jarðskjálfti upp á 4,9 stig. Skjálftarnir eiga upptök sín á þekktu jarðskjálftasvæði í Miðjarðarhafi en á svæðinu má finna fjölmörg misgengi. Árið 2004 mældist jarðskjálfti upp á 6,5 stig á þessu svæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×