Erlent

Táningsstúlka hótaði fjöldamorði í sænskum háskóla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Háskólinn í Örebrö í Svíþjóð er lokaður í dag vegna hótunar um fjöldamorð sem barst um helgina.
Háskólinn í Örebrö í Svíþjóð er lokaður í dag vegna hótunar um fjöldamorð sem barst um helgina. Mynd/Google Street View
Háskólinn í Örebrö í Svíþjóð er lokaður í dag vegna hótunar um fjöldamorð sem barst um helgina. Skilaboðum þess efnis var dreift í gegnum vinsælt samskiptaforrit. Lögregla telur að fimmtán ára gömul stúlka hafi sent hótunina.

Talið er að stúlkan hafi sent skilaboðin í gegnum samskiptaforritið Jodel sem er vinsælt meðal háskólanema. Samkvæmt frétt Expressen um málið hringdi móður stúlkunnar í lögregluna eftir að tilkynnt var um hótunina og að skólanum yrði lokað.

Í skilaboðunum stóð að nemendur ættu ekki að fara í skólann í dag, vildu þeir lifa. Telur lögreglan að ólíklegt sé að farið verði eftir hótuninni og að lítil sem engin hætta sé á ferðum. Skólayfirvöld háskólans ætla hinsvegar að standa við lokunina og verður því háskólinn lokaður í dag.

Um 17.000 nemendur stunda nám við skólann, þar af 1.200 alþjóðlegir nemendur. Stutt er síðan háskólanum í Lundi var lokað vegna hótunar í gegnum smáforritið Jodel. 12. október á síðasta ári var háskólanum lokað í sólarhring vegna slíkrar hótunar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×