Erlent

Dæmdur í 236 ára fangelsi fyrir nauðganir

Samúel Karl Ólason skrifar
Daniel Holtzclaw var í dag dæmdur í 236 ára fangelsi.
Daniel Holtzclaw var í dag dæmdur í 236 ára fangelsi. Vísir/Getty
Daniel Holtzclaw var í dag dæmdur í 236 ára fangelsi fyrir að nauðga fjórum konum og fjölmörg frekari kynferðisbrot. Hann var lögregluþjónn í Oklahoma í Bandaríkjunum þegar hann braut af sér á árunum 2013 og 2014. 

Holtzclaw neyddi konur sem höfðu komist í kast við lögin til að sænga hjá sér og að stunda munmök við sig. Þá sérstaklega konur úr fátækrahverfum Oklahomaborgar. Alls báru þrettán konur vitni gegn honum.

Nokkrar af konunum sem báru vitni gegn honum sögðu hann hafa stöðvað þær í umferðinni. Þá kannaði hann hvort þær hefðu brotið af sér, eða ættu við fíkniefnavanda að stríða. Eftir það réðst hann á þær.

Hann hafði verið ákærður fyrir 36 kynferðisbrot og var dæmdur sekur af 18 ákærum. Í dag var refsing hans ákveðin.

AP fréttaveitan birti í fyrra ítarlega rannsókn á ásökunum gegn lögregluþjónum í Bandaríkjunum. Þar kom í ljós að um þúsund lögregluþjónum hefði verið sagt upp störfum vegna kynferðisbrota á sex ára tímabili. Iðulega væru brot þeirra kæfð. Hins vegar hefðu margir þeirra geta fengið vinnu hjá öðrum lögregluembættum í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Varpa ljósi á fjölmörg kynferðisbrot lögregluþjóna

Samkvæmt AP fréttaveitunni hafa nokkur af fórnarlömbum Holtzclaw höfðað einkamál gegn honum og borginni fyrir alríkisrétti. 

Samkvæmt Reuters var Holtzclaw rekinn í janúar í fyrra eftir að eitt fórnarlamb hans steig fram. Þá hafði hann verið lögregluþjónn í þrjú ár. Þegar refsing hans var kveðin upp brast Holtzclaw í grát og sagðist ekki hafa brotið af sér. Hann ætlar að áfrýja úrskurðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×