Helgi birtir spurningarnar til stjórnarinnar í Fréttablaðinu í dag en hann segist þegar hafa spurt spurninganna á Facebook-síðu Rithöfundasambandsins. Í hópnum eru 172 rithöfundar og segist Helgi engin svör hafa fengið við spurningum sínum.
1. Eru til einhver svör við því hvers vegna Björn Vilhjálmsson, nefndarmaður RSÍ í úthlutunarnefnd í Launasjóði rithöfunda, sat ekki í þrjú ár eins og verklagsreglur gera ráð fyrir, heldur einungis eitt, þ.e. árið 2015? (Má benda á að annar nefndarmaður hóf setu í nefndinni árið 2014 og sat sitt þriðja ár 2016.)
2. Hvers vegna var Birni skipt út óforvarendis? Hvaða rök lágu þar að baki?
3. Hvernig fór það ferli fram að Birni var skipt út? Hver átti hugmyndina að því og hvers vegna? Stóð stjórn RSÍ að brottvikningunni saman? Einhuga?
4. Hvernig var nýr aðili fundinn? Hvaða aðferðafræði lá til grundvallar? Hver talaði við hann? Allir stjórnarmenn? Hvernig var þeim fundi háttað þar sem ákveðið var að skipta um mann, sem og þeim fundi þar sem valinn var nýr? Var fundurinn/-irnir formlegur? Var ritari að fundinum/-unum? Var skráð fundargerð?

Sjálfur segist Björn að honum hafi verið vikið úr nefndinni án nokkurra skýringa. Hann hafi farið að spyrjast fyrir eftir að hafa fengið veður af því utan úr bæ.
„Til að leita svara á því hvað hefði gerst hafði ég fyrst samband við Rannís sem vissi ekkert um ástæðurnar og beindi mér áfram til Menntamálaráðuneytisins. Þar ræddi ég við Karitas Gunnarsdóttur sem tjáði mér að ráðuneytið kæmi ekki að mannavali í þessa launanefnd. Ráðuneytinu bærist einfaldlega í hendur listi yfir tilnefnda nefndarfulltrúa beint frá stjórn Rithöfundasambandsins og ætti ég að snúa mér þangað til að leita svara við því hvers vegna mér hefði verið skipt út eftir árssetu í nefndinni, sem hún taldi reyndar líka vera einsdæmi,“ sagði Björn á dögunum.
Sjá einnig:Listamannalaunin árið 2016
„Þá hringdi ég í Kristínu Helgu Gunnarsdóttur formann Rithöfundasambandsins sem tjáði mér að verið væri að gera róttækar breytingar á skipan í nefndina, örari endurnýjun og styttri setutíma einstakra meðlima í nefndinni þættu nú ákjósanlegri kostur. Hún viðurkenndi að það hefðu verið mistök að hafa ekki samband við mig persónulega í ljósi þess að ég átti von á að sitja í nefndinni í þrjú ár og vildi jafnframt meina að það lægju engar persónulegar ástæður fyrir hvarfi mínu úr nefndinni eða fagleg gagnrýni að baki þessari tilhögun.“

„Lykillinn að því að hafa þetta sem gagnsæjast og faglegast er að þessi nefnd hreinsast og endurnýjar sig á þriggja ára fresti en árlega kemur nýr meðlimur inn í nefndina.“
Stjórn rithöfundasambandsins er skipuð fimm aðilum en athygli vakti á dögunum að allir hlutu full 12 mánaða listamannalaun. Stjórn sambandsins velur nefndina sem tekur ákvörðun um úthlutun launanna.
Í stjórn RSÍ sitja Jón Kalman Stefánsson, Andri Snær Magnason, Hallgrímur Helgason, Vilborg Davíðsdóttir sem og formaður sambandsins Kristín Helga Gunnarsdóttir. Úthlutunarnefnd Launasjóðs rithöfunda skipuðu Brynja Baldursdóttir formaður, Auður Aðalsteinsdóttir og Davíð Kjartan Gestsson.