Erlent

Flóttamenn styrkja efnahag þeirra sem taka við flestum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Aeham Ahmad er Palestínumaður frá Sýrlandi, verðlaunaður píanóleikari og tekur þarna þátt í mótmælum við aðallestarstöðina í Köln, sem efnt var til 16. janúar undir yfirskriftinni: Sýrlenskir flóttamenn andmæla árásunum í Köln.
Aeham Ahmad er Palestínumaður frá Sýrlandi, verðlaunaður píanóleikari og tekur þarna þátt í mótmælum við aðallestarstöðina í Köln, sem efnt var til 16. janúar undir yfirskriftinni: Sýrlenskir flóttamenn andmæla árásunum í Köln. Fréttablaðið/EPA
Flóttamannastraumurinn til Evrópu mun að öllum líkindum styrkja efnahag Evrópuríkjanna, einkum þeirra sem taka við flestum flóttamönnum: Þýskalands, Svíþjóðar og Austurríkis.

Þetta er mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hefur tekið saman ítarlega skýrslu um áhrif innflytjenda á efnahag Evrópuríkja.

„Til skemmri tíma hafa aukin ríkisútgjöld lítillega jákvæð áhrif á þjóðarframleiðsluna, einkum í helstu áfangalöndunum, Þýskalandi, Svíþjóð og Austurríki,“ segir í samantekt skýrslunnar. „Til lengri tíma litið getur fjölgun í vinnuafli haft varanlegri áhrif á hagvöxt og opinber fjármál, en það fer eftir því hve hratt og með hve árangursríkum hætti flóttamenn aðlagast vinnumarkaðnum.“

Lykillinn að góðri aðlögun felst, að mati sjóðsins, í því að auðvelda flóttafólkinu aðgang að vinnumarkaðnum, til dæmis með því að ríkið greiði atvinnurekendum launagreiðslustyrki og með því að gera flóttafólki kleift að vinna á meðan beðið er eftir afgreiðslu hælisumsókna.

„Þótt innlent launafólk hafi oft réttmætar áhyggjur af áhrifum innflytjenda á laun og atvinnu, þá sýnir fyrri reynsla að öll neikvæð áhrif eru bæði takmörkuð og tímabundin,“ segir í skýrslunni.

Fyrstu tíu mánuði ársins 2015 sóttu nærri milljón flóttamenn um hæli í Evrópusambandslöndunum, sem er helmingi meira en árið 2014. Þá kom meira en 1,1 milljón flóttamanna til Þýskalands á árinu 2015.

Í skýrslunni kemur fram að ríkisútgjöld vegna flóttafólks hafi verið að meðaltali um 0,14 prósent af þjóðarframleiðslu í ríkjum Evrópusambandsins á árinu 2015, og muni líklega verða um 0,22 prósent árið 2016.

Mest eru útgjöldin úr ríkissjóði Svíþjóðar, hálft prósent á árinu 2015 og líklega eitt prósent á árinu 2016.

Í skýrslunni segir að starfsmenn AGS hafi gert sérstaka úttekt á því hvernig innflytjendum hafi farnast á vinnumarkaði í Þýskalandi undanfarin 40 ár.

Þar kemur í ljós að verulegur launamunur er á fólki eftir því hvort það er innfæddir Þjóðverjar eða innflytjendur. Munurinn er mestur, eða um 20 prósent, fyrst eftir að innflytjendurnir koma til Þýskalands en fer svo jafnt og þétt minnkandi, um eitt prósent á ári, en hverfur aldrei alveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×