Erlent

Falskar lýsingar matvæla í Rússlandi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Gjörbreyting hefur orðið á matvörumarkaði Rússa eftir að lokað var fyrir innflutning helstu landbúnaðarvara.
Gjörbreyting hefur orðið á matvörumarkaði Rússa eftir að lokað var fyrir innflutning helstu landbúnaðarvara. VÍSIR/EPA
Færst hefur í vöxt að matvara í Rússlandi innihaldi ekki þau matvæli sem tiltekin eru í innihaldslýsingu. „Þetta kemur fram í nýlegu yfirliti frá RUIE sem eru eins konar samtök iðnaðarins í Rússlandi,“ segir í umfjöllun Landssambands kúabænda.

Vísað er til þess að í gögnum RUIE komi meðal annars fram að 76 prósent af þeim osti sem seldur sé í landinu innihaldi fyrst og fremst plöntufitu en ekki mjólkurfitu. „Þá innihalda unnar kjötvörur afar lítið af kjöti og þeim mun meira af plöntupróteinum í staðinn, enda skortur á kjöti líkt og mjólkurafurðum í landinu.“

Breytingin er sögð tilkomin eftir að Rússar lokuðu fyrir innflutning helstu landbúnaðarvara til landsins frá mörgum löndum í Evrópu og víðar. Við það hafi orðið gjörbreyting á matvörumarkaði Rússa, enda hafi stór hluti matvæla verið innfluttur. „Nú hefur svo komið í ljós að á rússneska markaðinum eru ótal falsaðar matvörur, það er vörur sem innihalda hreint ekki það sem þær ættu að gera samkvæmt innihaldslýsingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×