Erlent

Helgi Valur: „Hefði verið stórmál hefði ég verið fyrstur til að lenda í þessu“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Helgi Valur í leik með íslenska landsliðinu gegn Noregi. Alls lék hann 33 A-landsliðsleiki.
Helgi Valur í leik með íslenska landsliðinu gegn Noregi. Alls lék hann 33 A-landsliðsleiki. vísir/vilhelm
„Það er rúmlega ár síðan ég frétti af þessu máli,“ segir Helgi Valur Daníelsson, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, í samtali við Vísi. Umrætt mál tengist glæpahrings í Svíþjóð sem komst yfir ýmsar upplýsingar um atvinnumenn í íþróttum þar í landi og nýtti þær til þess að komast yfir fé og taka lán í þeirra nafni.

Átta meðlimir hringsins voru dæmdir í fangelsi í dag en höfuðpaur hans fékk lengstan dóm, fimm ára fangelsi. Helgi Valur var ekki eini Íslendingurinn sem varð fyrir barðinu á svikahröppunum því þeir tóku einnig lán á nafni Gunnars Heiðars Þorvaldssonar.

„Þetta var í kjölfar þess að ég flutti frá Svíþjóð til Portúgal og síðar frá Portúgal til Danmerkur. Ég átti von á að fá peninga endurgreidda frá sænska skattinum en hafði ekkert fengið,“ segir Helgi Valur. Eftir tímabilið 2013 fór hann frá sænska liðinu AIK til portúgalska liðsins Belenenses. Eftir ár í Portúgal tók við eitt tímabil með AGF í Danmörku áður en hann hætti knatspyrnuiðkun síðasta sumar.

Þegar endurgreiðslan skilaði sér ekki skoðaði Helgi Valur sænsku skattskýrsluna sína og tók eftir því að búið var að breyta reikningsnúmerinu hans og féð var horfið. „Síðar komst ég að því að þeir höfðu tekið lán í mínu nafni upp á 300.000 sænskar krónur (rúmlega 4,5 milljónir íslenskra króna) sem ég var náttúrulega í vanskilum með.“

Helgi Valur í leik með AIK.vísir/nordic photos
Klaufaskapur að lenda í þessu

Svindlararnir virðast hafa fylgst með því hvaða íþróttamenn, jafnt erlendir sem sænskir, voru á leið frá Svíþjóð til að spila annars staðar. Þeir hafi komist að því hvar þeir hafi haft aðsetur og í kjölfarið komist yfir póstsendingar. Upplýsingar úr bréfunum notuðu þeir til að falsa skilríki og fara með þau í banka til að taka út fé eða sækja um lán í nafni íþróttamannanna.

„Þetta er í raun smá klúður hjá mér. Það hafði hringt í mig maður frá sænsku leikmannasamtökunum sem sagði mér að það væru einhverjir gæja að stunda þetta,“ segir Helgi Valur. „Þegar maður er að fara úr landi á maður auðvitað að færa heimilisfangið, loka öllum reikningum og slíkt, en ég virðist ekki hafa gert það í tæka tíð.“

Helgi Valur segir að það góða við þetta mál allt saman sé að þegar hann lenti í þessu vissu leikmannasamtökin og lögreglan af því. Svikararnir hafi þá þegar verið til rannsóknar. „Þetta hefði allt saman verið miklu, miklu meira vandamál ef ég hefði verið sá fyrsti sem varð fyrir barðinu á þeim. Ég gat hringt í tengilið minn í Svíþjóð og þurfti að standa í ofboðslega litlu veseni vegna þessa. Peningana hef ég fengið endurgreidda og þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu láni.“

Knattspyrnan verði aðeins áhugamál

Líkt og áður segir fóru skórnir upp á hilluna víðfrægu síðasta sumar. Sem stendur býr Helgi Valur ásamt fjölskyldu sinni í Lisabon í Portúgal þar sem hann er að ljúka mastersnámi í lyfjahönnun. 

„Það gekk ekki upp að fjölskyldan væri hér og ég í Danmörku. Eiginkona mín fékk gott tækifæri hérna þar sem hún er að klára kennaranám og kennir í alþjóðlegum skóla. Hún hefur í nógu langan tíma elt mig um allar trissur þannig ég er núna að hugsa um fjölskylduna og heimilið samhliða því sem ég klára námið mitt,“ segir Helgi Valur.

Knattspyrnuferillinn færði hann víða. Árið 1998, þegar hann var sautján ára, fluttist hann til Englands þar sem hann spilaði í fimm ár með Peterborough. Þaðan sneri hann aftur heim í Fylki en eftir þrjú ár lá leiðin aftur út. Þar spilaði hann lengst af í Svíþjóð en einnig í Þýskalandi, Portúgal og Danmörku. Þá á hann að baki 33 A-landsliðsleiki fyrir Íslands hönd. 

„Sem stendur er ég að leita mér að vinnu sem tengist náminu mínu en það var alltaf stefnan að fara í þetta eftir lok knattspyrnuferilsins. Ég get auðvitað hugsað mér að starfa í knattspyrnunni eitthvað áfram en það yrði meira áhugamál heldur en aðalvinna,“ segir Helgi Valur að lokum.


Tengdar fréttir

Hvatningin ekki til staðar hjá Helga Val

Helgi Valur Daníelsson hefur ákveðið að hætta í fótbolta. Hann er 33 ára gamall og líkaminn er í góðu standi. Hann útilokar ekki að endurskoða ákvörðun sína síðar, en atvinnumannsferlinum er líklega lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×