Skoðun

Draumaforsetinn

Karl V. Matthíasson skrifar
Nýr forseti Íslands verður kosinn á þessu ári. Ekki er nú ljóst hversu mörg verða í framboði. Þau verða að öllum líkindum ófá og enn fleiri eru þau sem máta sig í huganum við embættið og langar jafnvel að gefa kost á sér, en leggja ekki í það af ýmsum ástæðum.

Forseti Íslands á að vera manneskja sem við eigum öll að geta horft til með virðingu og ánægju. Manneskja sem áttar sig á þeim þáttum í samfélagi okkar sem betur mega fara. Forsetinn á að vera hugrakkur, geta komið með vinsamlegar ábendingar um lagfæringar og breytingar á ýmsum þáttum í þjóðlífi okkar sem stjórnmálafólkið ætti að taka fegins hendi og vilja stuðla að. (Samanber jákvæð viðbrögð forsætisráðherra er núverandi forseti benti vinsamlega á bága stöðu margra eldri borgara og öryrkja í landinu.)

Það gæti líka verið vinsamleg ábending að öll þau sem búa í þessu landi ættu að eiga rétt á því að fá að ljúka að minnsta kosti fjögurra ára námi endurgjaldslaust eftir grunnskóla jafnvel þótt þau séu orðin fullorðin.

Önnur vinsamleg ábending forseta til þjóðarinnar og valdhafa hennar er að gera mætti mun betur fyrir það fólk sem orðið hefur fyrir hvers konar andlegum og líkamlegum áföllum, en nýtur nú allt of lítils stuðnings til að geta risið almennilega á fætur.

Næsti forseti ætti að leggja mikið á sig til þess að skapa aukna virðingu á sviði samskipta kynjanna. Koma sterkt inn í þá umræðu, að engin einasta manneskja sé vara til kynferðislegrar neyslu. Þá er það líka hlutverk forsetans að tala gegn annarri græðgi og benda á það að sýki í peninga er vond og hættuleg sýki sem leitt getur til mikillar þjáningar, orsakað fátækt, skort og hörmungar hjá öðrum. Þetta er jafn mikið alvörumál sem áfengis- og önnur fíkniefnasýki. Á einum stað stendur nefnilega: „Enginn getur þjónað Guði og Mammon.“ Eins mætti segja: „Enginn getur þjónað Guði og Bakkusi.“ Þess vegna á forsetinn að hvetja þjóðina til að vera bindindissama, hógværa og vera ekki í „Við erum best og flottust“ leiðöngrum því afrekin eiga að vera afleiðing ánægjulegrar, uppbyggjandi ástundunar og æfinga en ekki öfugt.

Á að vera verndari

Forsetinn á að vera verndari þeirra sem miðla lífsgleði, hvatningu, von eða huggun inn í góðar eða erfiðar aðstæður. Forsetinn á að vera verndari flóttamanna og birtingarmynd samfélags sem vill rétta hjálparhönd og stuðla að friðvænlegri heimi.

Forsetinn má alls ekki vera merkikerti eða snobbaður og á að hafa húmor fyrir sjálfum sér og þjóð sinni og geta bent henni á þá staðreynd að við lifum ekki lengi hér á jörð og að við eigum að skila landinu, miðunum og samfélaginu öllu í betra ástandi en það var í þegar við fæddumst. Forseti lítils lands á að geta farið í heimsóknir til forseta annarra landa og stuðlað að friði.

Forsetinn sem nú fer frá Bessastöðum hefur sýnt að það er hægt að ná sambandi við fullt af valdamiklu fólki og hafa góð áhrif á sviði mannverndar, dýraverndar, annarrar náttúruverndar og friðar í heiminum.

En umfram allt verður forseti Íslands að elska alla íbúa landsins jafnt menn og dýr og vera reiðubúinn að taka á móti og styðja hvern þann sem mögulegt er. Forsetinn verður að hafa fallegan og góðan mannskilning, vera umburðarlyndur og styðja með kærleika og elsku til dáða og góðra verka og honum eða henni má ekki vera í nöp við þann kærleiksboðskap sem þjóðin hefur fengið að heyra um aldir og hefur hjálpað og stutt í hvers kyns raunum neyð og sorg en uppörvað til þakklætis og gleði á góðum dögum.

Fyrsta verk nýs forseta ætti að vera að bjóða þeim Breiðavíkurdrengjum sem enn lifa og öðrum sem orðið hafa fyrir harðræði, heimsku og illsku af hálfu hins opinbera til iðrunar- og fyrirgefningarveislu á Bessastöðum.

Ég bið Guð um að þjóðin eignist kærleiksríka, miskunnsama, hógværa og hjartahreina manneskju á Bessastaði.




Skoðun

Sjá meira


×