Skoðun

Ísland og Bandaríkin – hvað er svona sérstakt ?

Ólafur Baldursson skrifar
Talsvert hefur verið rætt og ritað um samband Íslands og Bandaríkjanna á undanförnum árum, enda af nógu að taka og margar hliðar á málinu. Mest hefur verið fjallað um sambandið út frá sjónarhóli utanríkis- og varnarmála, umhverfismála og viðskipta. Í því samhengi hafa menn velt fyrir sér orðalaginu „hið sérstaka samband“ og ýmsir dregið það í efa eftir þær breytingar sem áttu sér stað á skipulagi varnarmála við brotthvarf varnarliðsins árið 2006. En ég ætla ekki að hætta mér út á það sprengjusvæði í þessum pistli.

Það sem fékk mig til þess að setja orð á blað núna var miklu fremur persónuleg reynsla og sú staðreynd að fjölskyldumeðlimir og margir vinir og kunningjar hafa sótt sér menntun og þjálfun í ýmsum greinum til Bandaríkjanna á undanförnum 60 árum. Um er að ræða margar ólíkar greinar svo sem blaðamennsku, málvísindi, viðskiptafræði, íþróttir, gervigreindarfræði, veðurfræði, lyfjafræði, verkfræði, hjúkrunarfræði, læknisfræði o.fl.

Mér hefur fundist athyglisvert hve margir úr þessum hópi lýsa reynslu sinni af námsdvöl í Bandaríkjunum með afar jákvæðum hætti, en hef vissulega engan raunverulegan samanburð við önnur lönd hvað þessar vangaveltur varðar. En það er sláandi hve oft heyrist jákvæð lýsing á vináttu og áframhaldandi samvinnu við Bandaríkjamenn löngu eftir að formlegu námi lýkur. Ég þekki minna til í öðrum greinum svo sem kvikmyndagerð og tónlist, en sé ekki betur en samvinna við Bandaríkjamenn sé einnig mikil á þeim sviðum. Samkvæmt upplýsingum frá sendiráði Bandaríkjanna hafa tæplega 3.000 Íslendingar fengið vegabréfsáritun sérstaklega til ýmiss konar náms eða þjálfunar í Bandaríkjunum á undanförnum 5 árum.

Öll þessi sambönd eru afar mikils virði í sjálfu sér, en einnig og ekki síst vegna þess að þau opna ný tækifæri fyrir ungt fólk og hafa því áframhaldandi jákvæð áhrif á náms- og starfsferil fjölda Íslendinga. Hvað framhaldsnám og starfsnám í læknisfræði varðar, þá greiða bandarísk tryggingafélög í raun þann námsstyrk sem læknar í slíku námi fá, m.a. fyrir mikla viðveru og vaktir, og má því segja að bandarísk tryggingafélög hafi á vissan hátt aukið virði íslenskrar heilbrigðisþjónustu.

Þá eru ótaldir þeir mörgu Íslendingar sem hlotið hafa styrk til náms í Bandaríkjunum vegna afreka sinna í íþróttum, en slíkir styrkir eru algengir og hafa opnað mikil tækifæri fyrir ungt fólk til náms og íþróttaiðkunar. Um er að ræða knattspyrnu, frjálsar íþróttir, golf, körfuknattleik og fleiri greinar. Athygli vekja einnig dæmi um að í vissum íþróttum, s.s. körfuknattleik, getur reynsla bandarískra leikmanna á Íslandi nýst þeim sem stökkpallur inn í sterkari deildir í Evrópu. Nokkuð er einnig um að bandarískir þjálfarar hafi starfað hér á landi í ýmsum íþróttum.

Þegar horft er til mælinga á gæðum háskólastarfs virðast margir bandarískir háskólar standa framarlega. Þá er áhugavert að leyfa sér að setja upp einfalda formúlu sem margfaldar hin mörgu persónulegu tengsl, gæði náms og langan líftíma tengslanna sem getur náð til nokkurra kynslóða. Niðurstaðan yrði án efa „há tala“, og mikils virði fyrir einstaklinga og íslenskt samfélag til langs tíma. Þeim dæmum fjölgar einnig þar sem Íslendingar gefa til baka til bandarísks samfélags í gegnum þessi sambönd þannig að borgarar beggja landa hagnast af samskiptunum.

Það liggur því beint við að velta fyrir sér, hvort „hinu sérstaka sambandi“ þjóðanna verði ekki best lýst með þeim fjölmörgu og lifandi tengslum sem rakin hafa verið hér, fremur en að sambandið sé sérstakt á einhvern óræðan pólitískan eða diplómatískan hátt. Þá mætti spyrja hvort ekki væri farsælt að rækta sambandið í samræmi við hið raunverulega eðli þess, öllum til góðs til skemmri og lengri tíma litið.




Skoðun

Sjá meira


×