Erlent

ESB hyggst gera gagngerar breytingar á Dyflinnarreglugerðinni

Atli Ísleifsson skrifar
Straumur flóttafólks til Evrópu var gríðarlegur á síðasta ári.
Straumur flóttafólks til Evrópu var gríðarlegur á síðasta ári. Vísir/AFP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun að öllum líkindum leggja til í mars að gagngerar breytingar verði gerðar á Dyflinnarreglugerðinni svokölluðu.

Að sögn Financial Times verður reglan um að flóttamaður beri að sækja um hæli í því Schengen-ríki sem hann kemur fyrst til felld úr gildi.

Í frétt FT kemur fram að líklegt þyki að tillaga um breytingar á Dyflinnarreglugerðinni verði lögð fram í mars og sé búist við miklum mótbárum frá fjölda aðildarríkja.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs sambandsins, sagði í gær að aðildarríki ESB hefðu tvo mánuði til að ná almennilegri stjórn á flóttamannavandanum. Sagði hann Schengen-samstarfið í hættu.

Erfiðlega gekk að framfylgja ákvæðum reglugerðarinnar á síðasta ári, auk þess að Þjóðverjar hættu að beita henni í ákveðnum tilviku. Auk þess hafa langflestir flóttamenn komið til álfunnar um Ítalíu og Grikkland og er áætlað að um 850 þúsund manns hafi komið til Grikklands og 200 þúsund til Ítalíu á síðasta ári. Reglugerðin var á sínum tíma ekki hönnuð með slíkan fjölda hælisleitenda í huga.

Dyflinnarreglugerðin felur í sér viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða Schengen-ríki beri ábyrgð á meðferð hælisumsóknar sem einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkja Schengen-svæðisins. Er því ætlað að koma í veg fyrir að ríkisborgari þriðja ríkis ferðist á milli Schengen-landanna og sæki um hæli í hverju ríki. Samkvæmt reglugerðinni á aðili að sækja um hæli í því landi á svæðinu, sem hann kemur fyrst til.

Nánar má lesa um reglugerðina á Evrópuvefnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×