Skoðun

Skattafróðleikur í ársbyrjun

Alexander G. Eðvardsson skrifar
Í ársbyrjun tók gildi viðamikil breyting á lögum um virðisaukaskatt þegar stór hluti ferðaþjónustunnar varð virðisaukaskattsskyldur. Breytingin er í samræmi við markmið stjórnvalda um breikkun skattstofna þar sem sú starfsemi sem nú varð virðisaukaskattsskyld hafði verið utan kerfisins frá upptöku þess.

Með breytingunni varð stór hluti þeirrar þjónustu sem flokkuð hafði verið sem fólksflutningar virðisaukaskattsskyldur auk þess sem þjónusta ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga var gerð virðisaukaskattsskyld. Væntanlega hafa mörg hundruð nýjar skráningar rekstraraðila á virðisaukaskattsskrá verið gerðar á síðustu dögum ársins 2015 vegna þessa.

Þrátt fyrir að lögin hafi tekið gildi um síðustu áramót hófst vinna við undirbúning lagabreytingarinnar á árinu 2013. Samtök ferðaþjónustunnar höfðu ákveðið frumkvæði að undirbúningnum, enda um stórt hagsmunamál fyrir greinina að ræða og mikilvægt að vel tækist til. Á árinu 2014 var unnið með stjórnvöldum að framangreindri breytingu sem lauk með lagasetningu í lok þess árs. Góð sátt náðist um lagabreytinguna þótt í ljós hafi komið síðar að ýmislegt mátti betur fara. Ákveðið var að vinna að nauðsynlegum lagfæringum á árinu 2015, enda var gildistakan ekki fyrr en í ársbyrjun 2016. Gera þurfti nokkrar breytingar á lögunum sjálfum og einnig á reglugerð um innskatt.

Skipaður var starfshópur með fulltrúum frá Samtökum ferðaþjónustunnar, skattyfirvöldum og fjármálaráðuneytinu til að vinna að nauðsynlegum lagfæringum. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum í september 2015 og var frumvarp til breytinga á lögum um virðisaukaskatt, sem lagt var fyrir Alþingi á haustmánuðum 2015, byggt á vinnu hópsins. Einnig voru breytingar á reglugerð um innskatt, sem ekki voru birtar fyrr en 30. desember 2015, byggðar á vinnu starfshópsins.

Þrátt fyrir mikið og gott samráð í öllu ferlinu tókst löggjafanum við lokaafgreiðslu frumvarpsins á Alþingi í lok desember, án nokkurs samráðs við helstu hagsmunaaðila, að lögfesta breytingar sem bæði gengu þvert á niðurstöður starfshópsins og fela einnig í sér ákvæði um afturvirka skattlagningu sem fær að sjálfsögðu ekki staðist.

Á skattafróðleiksfundi KPMG á morgun, fimmtudag, verður gerð grein fyrir framangreindum breytingum á lögum um virðisaukaskatt ásamt því sem helstu breytingar á lögum um tekjuskatt og aðrar áhugaverðar lagabreytingar verða kynntar. Fróðleiksfundurinn hefst kl. 8.30 í húsakynnum KPMG í Borgar­túni 27 og er öllum opinn.




Skoðun

Sjá meira


×