Skoðun

Svart og sykurlaust

Auður Jóhannesdóttir skrifar
Nú er í umræðunni að herða beri regluverk í kringum stofnun fyrirtækja með takmarkaða ábyrgð (einkahlutafélaga) til að sporna við kennitöluflakki og skattaundanskotum. Þessi umræða er svo sem ekkert ný af nálinni og ýmis hagsmunasamtök atvinnulífsins og launþega hafa reglulega vakið athygli á því meini sem svört atvinnustarfsemi er í íslensku atvinnulífi án þess að mikið virðist breytast.

En er hert regluverk eina leiðin? Er ástæða til að þrengja að athafnafólki sem er upp til hópa heiðarlegt til þess að að koma í veg fyrir að nokkrir siðleysingjar steli frá okkur peningum? Snýst þetta kannski frekar um frjálsleg viðhorf samfélagsins til svartrar atvinnustarfsemi og græðgi þeirra sem eru tilbúnir til að kaupa vörur og þjónustu undir borðið eða af kennitöluflökkurum?

Í rannsókn sem Rannsóknarstofnun atvinnulífsins á Bifröst gerði 2014 á umfangi skattaundanskota í ferðaþjónustu kom fram að einn helsti hvati svartrar starfsemi væri sá að starfsfólk fengist einfaldlega ekki til vinnu öðru vísi en að fá borgað svart, þetta ætti einkum við á háannatíma og í aukavinnu þar sem starfsfólki finnst ekki taka því að vinna þegar helmingur launanna færi í skatta. Það að borga svört laun kallaði svo á að hluti rekstrarteknanna yrði líka að vera falinn, þá er kannski einfaldast að sleppa því að bókfæra þær tekjur sem koma inn í peningum. Kannski við ættum bara að úthýsa seðlum á Íslandi? Það er erfiðara að stunda undanskot þegar allar greiðslur skilja eftir sig rafræn spor. Þetta ástand er ekki bundið við ferðaþjónustuna þótt hún hafi verið viðfang þessarar rannsóknar og ég efast ekki um að flestir þekki a.m.k. nokkur dæmi um óuppgefin viðskipti í sínu nánasta umhverfi.

Það eru náttúrulega kostir í þessu fyrir atvinnurekendur, „svartir“ starfsmenn eiga hvorki rétt á veikindadögum né eru þeir líklegir til vandræða jafnvel þótt þeir fái greitt seint og illa. Svartar tekjur skila svo sennilega fleiri aurum í vasann svona til skamms tíma litið. En þótt það sé hægt og auðvelt er ekki þar með sagt að það sé rétt eða gott. Ríkið er ekki aðskilið frá þegnunum heldur erum við ríkið og sá sem svíkur undan skatti er ekki bara að svíkja einhvern ópersónulegan skattmann heldur einnig sjálfan sig og okkur sem búum hérna með honum. Róðurinn yrði eflaust auðveldari ef sumir sætu ekki bara í þjóðarbátnum, ætu kostinn og létu hina um að róa.




Skoðun

Sjá meira


×